Kæri lesandi,

mér tókst að gera eitthvað í gær. Tiltekt og ryksugun og svo vann ég aðeins í ónefndu handriti. Las eitthvað og horfði á kvikmyndina Knocked Up í fyrsta skipti í rúman áratug (enn góð). Týpískur sunnudagur.

Við Lilja settum líka prufur á veggina. Við höfum málað allt sameiginlegt rými hússins í hvítum lit (og loftin) en nú eru eftir tveir gluggaveggir í stofunni. Við ákváðum að setja lit á þá veggi og pælingin var að reyna að finna einhvern grátón með daufum litbrigðum, hvort sem það yrði rautt eða fjólublátt eða jafnvel bleikt brigði. En dauft átti það að vera. Við skoðuðum prufuseðla og völdum fjóra liti fyrir helgi sem fóru svo upp um helgina. Það er skemmst frá því að segja, eins og myndin hér að ofan sýnir glöggt, að þetta eru litir sem henta barnaherbergjum, ekki stofuprýði fullorðinna einstaklinga sem vilja vera teknir alvarlega af samborgurum sínum.

Aftur fórum við í prufuleiðangur og sóttum sex prufur til viðbótar. Þær voru meira í rauðri ætt. Og aftur fannst okkur allir litirnir of væmnir, of barnalegir. Þetta ætlar að reynast þrautinni þyngri. Lilja ætlar að renna einu sinni enn í dag, á meðan ég vinn, og reyna að láta sérblanda fyrir okkur tvo liti til viðbótar eftir þröngum skilgreiningum. Ef það virkar ekki held ég að ég játi ósigur og máli veggina bara gráa, leiti frekar að litríkum gluggatjöldum þar sem þetta eru jú gluggaveggirnir tveir og gluggarnir frekar stórir. Það er skárra heldur en að mála einhvern Kærleiksbangsalit á stofuveggina heima hjá mér.

Þar til næst.