Kæri lesandi,
í hugleiðslu temur maður sér að sitja og horfa á hugsanir sínar álengdar. Eins og persóna á garðbekk við hraðbraut reynir maður að sleppa takinu og fylgjast með hugsununum, öðlast smá fjarlægð, æfa sig í að hætta að hrærast í öngþveiti hugans.
Stundum, þegar ég horfi yfir nýliðna daga, fæ ég svipaða tilfinningu. Eins og ég hafi ekki haft stjórn á neinu, dagarnir hafi bara liðið og safnast saman í augnablik og upplifanir og rútínu og atburði sem mynda lítið samhengi þegar maður lítur til baka.
Sem útskýrir kannski af hverju það leið vika á milli færslna hér inni. Ég bara … gleymdi mér. Fattaði á fjórða degi að ég hafði gleymt að skrifa færslur hér inn á síðuna, og ákvað í kjölfarið að kalla þetta bara vikufrí. Þessi vika fór svo í ýmislegt, sem safnast saman í ekki neitt. Tími liðinn. Stundir meðteknar. Ég kláraði einhverja bók og byrjaði á annarri, horfði á fótboltaleiki sem skiptu öllu máli en skipta samt mjög litlu um leið og liðin spila næsta leik, málaði heima hjá mér (bangsalitirnir eru horfnir af veggjum) og svo framvegis. Þetta voru góðir dagar, en ég man einhverra hluta vegna mjög lítið eftir þeim.
Í kvöld ætla ég að mála meira. Nú erum við á dagskrá, ætlum að halda tvískipt barnaafmæli (til að passa fjarlægðartakmörkin og smithættuna) næsta laugardag, sem þýðir að skyndilega eru verkefnin með ákveðin tímamörk. Ég þarf að mála, konan mín þarf að baka, við þurfum að þrífa og klára að hengja upp myndir aftur eftir málun sumarsins. Svo þarf að sótthreinsa, fyrir og á meðan og á eftir.
Lífið er ljúft. Mér líður vel og fjölskyldunni líka. Við njótum stundanna saman, borðum góðan mat og spilum og leikum okkur. Við sofum vel, þrífumst og döfnum. Barnaafmæli eru líka spennandi, þótt ég muni varla eftir því síðasta sem við héldum í fyrra. Ætli komandi vika verði eins og sú síðasta, ánægjulega gleymanleg?
Þar til næst.