Kæri lesandi,

hann sagði, hvað myndum við gera ef jörðin myndi hætta að snúast um möndul sinn, ef hér yrðu hálfgerð tíðahvörf og við sætum uppi með eina árstíð? Svo sagði hann, ætli við yrðum svo heppin að hljóta eilíft vor, eða jafnvel endalausa sumarbyrjun?

Ég hugsaði mig um áður en ég svaraði. Sagði svo, glætan, jafnvel þótt við litum framhjá þeim stjarnfræðilega ómöguleika sem felst í því að jörðin hætti að snúast um sjálfa sig værum við aldrei svo heppin að hljóta eilíft vor, og því síður endalausa sumarblíðu.

Hmmm, sagði hann og tuggði pípuna. Glætan. Það er nú meira orðið. Það er ekki glæta, það skil ég vel. En einhvers staðar ákváðum við að gera glætuna að atviksorði sem lýsir fáránleika hugmyndar, og nær engu öðru. Glætan. Þú ert ruglaður. Þetta er ekki mögulegt, og fásinna að halda öðru fram. Allur þessi dómur felst í orðinu. Glætan.

Þegar ég var yngri mátti jafnvel leggja áherslu á orðið með því að skeyta spætunni aftan við. Glætan spætan. Þá tókst þér bæði að fella dóm yfir hugmynd viðmælandans og minna hann á þína eigin yfirburði. Allir gátu fengið glætuna í andlitið en aðeins þeir sem ræddu við alvöru töffara fengu spætuna með, sagði ég.

Hmmm, sagði hann og færði pípuna á milli munnvika, púaði. Það kann vel að vera, en glætan spætan að þú sért nógu mikill töffari til að komast upp með að skeyta spætunni aftan við.

Ég roðnaði, rótaði djúpt og hratt eftir andsvari. Svo kom það. Segir sá sem heldur að tíðahvörf sé hugtak úr vísindaskáldskap, sagði ég hróðugur. Bætti svo við, taktu það og troddu því í pípuna þína.

Þar til næst.