Kæri lesandi,

þegar ég var tvítugur sat ég í herberginu heima hjá mér og las enska rokktímaritið Kerrang. Í blaðinu var stórt viðtal við Chino Moreno, söngvara Deftones, sem var þá uppáhalds hljómsveitin mín, þar sem hann lýsti upptökuferli og hugarfari sínu við sköpun væntanlegrar plötu, White Pony, sem kom svo út 20. júní það ár, 2020. Ég man að ég las viðtalið og fylltist spennu fyrir væntanlegri breiðskífu Deftones, spennu sem breyttist svo í undrun og ánægju þegar ég heyrði loks plötuna. Enn í dag er White Pony á meðal bestu platna sem ég hef heyrt um ævina, í algjöru uppáhaldi og jafn fersk nú og hún var þá.

Deftones hafa gefið út átta plötur og ég hef gengið í gegnum þetta sama ferli fyrir þær allar. Fyrst bíð ég þolinmóður þegar fregnir af upptökum sveitarinnar fara að leka. Svo kemur yfirleitt stórt viðtal við sveitina (oftar en ekki í Kerrang) sem keyrir allt í gang og svo tel ég niður þar til platan kemur út.

Í dag er ég helmingi eldri en ég var vorið 2020 en það hefur ekkert breyst. Í dag kom út nýtt forsíðuviðtal við Deftones vegna væntanlegrar plötu þeirra, ohms. Platan kemur út 25. september og þykir lofa einstaklega góðu, fróðir menn segja að það sé sérstök ástæða til bjartsýni í þetta skiptið. Ekki það að Deftones hafi nokkru sinni valdið mér vonbrigðum. Plöturnar þeirra eru á bilinu nokkuð góðar upp í einstakar, og að mínu mati hafa fjórar af átta plötum þeirra verið það sem við getum kallað klassísk meistaraverk, sem er sko drullugott.

Ef ohms verður sú fimmta í þeim flokki, þá hugsun get ég vart hugsað til enda fyrir spenningi. En það er allavega ný Deftones-plata á leiðinni og unglingurinn í mér hefur varla getað hugsað um neitt annað í dag. It is what it is.

Myndina hér að ofan tók ég laugardagskvöldið 18. júní 2016, þegar uppáhalds hljómsveitin mín kom og spilaði í regnvotum Laugardalnum fyrir æsta Íslendinga. Ég var þarna fremst, leyfði ungri og lágvaxinni konu að standa með vinkonu sinni fyrir framan mig en hafði annars Chino í andlitinu í einn og hálfan tíma. Það var ógleymanlegt kvöld. Þvílík hljómsveit!

Þar til næst.