Kæri lesandi,

veðrið í dag er svo gott að það virðist syndsamlegt að ætla að sitja inni og vinna við tölvu. Ágústmánuður er langt kominn og þá dett ég í sama gírinn og svo oft áður, finnst ég þurfa að skrásetja og vitna um síðustu dagana af bongóblíðu áður en haustið mætir af krafti. Dagana þar sem skýin á heiðbláum himni líta út eins og Monet hafi málað þau, dagana þar sem ég sé allan fjallgarðinn frá Þorbirninum til Snæfellsjökuls þegar ég keyri Brautina. Dagana þar sem hrossaflugurnar hafa tekið við af mýinu og geitungunum. Þessir dagar eru taldir, ef ekki af mér þá einhverjum öðrum.

Ég hugleiddi fyrir svefninn í gærkvöldi og aftur í hádeginu í dag. Ég mæli eindregið með þessu. Hugleiðsla veitir þér ekki aðeins hugarró heldur breytir því hvernig þú vinnur úr hugsunum og atburðum í lífi þínu. Eftir því sem þú kemst dýpra í hugleiðslu hefurðu minni þörf fyrir hugleiðslu. Minni þörf en sterkari löngun, ef það meikar sens. Ég elska þetta allavega, þetta er að verða ómissandi þáttur í daglegu lífi hjá mér. Ég finn muninn á manninum sem hugleiðir daglega og manninum sem gerir það ekki, og kappkosta að vera sá fyrri sem oftast.

Þar til næst.