Kæri lesandi,
sjáðu þetta og hlustaðu. Sjáðu bara!
Jesús Kristur á kexi. Þvílíkt lag. Þvílíkt myndband. Ég ræð mér vart!
Þetta hefur verið dagur nýrrar tónlistar. Ég vakti í alvöru til miðnættis í gær og beið eftir að nýja Deftones-lagið dytti inn á Spotify, sem það og gerði þrjár mínútur yfir tólf. Ég hlustaði á það þrisvar í gegn og fór svo að sofa. Svaf illa, kannski skiljanlega. Það fyrsta sem ég gerði í morgun var svo að horfa á tónlistarmyndbandið sem hafði bæst við. Þetta er nú bara með flottari rokkmyndböndum sem ég hef séð lengi.
Svo keyrði ég á skrifstofuna, en þar biðu mín nýjar breiðskífur með Bright Eyes og St Francis Hotel. Ég hef reyndar hlustað á megnið af St Francis Hotel-plötunni í smáskífuformi síðustu misserin, bjó til playlista sem inniheldur alveg átta af tólf lögum plötunnar sem er nú loksins komin út. Þetta er samt sem áður eðalgott.
Bright Eyes hafa snúið aftur eftir níu ára hlé með plötuna Down in the Weeds, Where the World Once Was. Conor Oberst hefur ekkert breyst hvað varðar langa plötutitla. Hey Conor, það á ekki að þurfa að setja kommu í titil breiðskífu. Þetta er titill, ekki setning. Hvað um það, platan er frábær, það besta sem Oberst hefur gert síðan svona 2005 og instant klassík eins og sagt er, allavega besta plata Bright Eyes síðan tvennan Digital Ash in a Digital Urn og I’m Wide Awake, It’s Morning (aftur með kommurnar) sprengdu alla skala fyrir fimmtán árum.
Hér sit ég og baða mig í nýrri tónlist. Deftones! Bright Eyes! St Francis Hotel! Eyru mín!
Ég er annars að leggja lokahönd á síðasta vinnudag í bili. Ég ætla að taka þrjár vikur í sumarfrí frá og með rétt bráðum. Þetta er seinni helmingur sumarfrísins sem ég átti inni, ég tók mér þrjár vikur í kringum mánaðamót júní og júlí og nú klára ég. Þá vorum við fjölskyldan saman á hverjum degi í þrjár vikur, nutum góða veðursins heima í Hafnarfirði og fórum í sund, spiluðum og leyfðum stelpunum að bjóða vinkonum sínum í heimsókn. Rákum hálfgert dagheimili, eiginlega. Í þetta sinn verður annað uppi á teningnum, stelpurnar eru að byrja í skóla í næstu viku þannig að við Lilja sjáum fram á að geta verið meira tvö á daginn næstu þrjár vikurnar. Nú er bara að skipuleggja alls konar paradekur, auk þess sem ég mun reyna að hitta alla vinina og slíkt. Svo förum við örugglega í bústað. Þetta verður gott.
Fyrst á döfinni er þó afmælisstúss. Guðrún okkar er tólf ára á morgun og þá er haldin veisla, nema þökk sé kórónavírusnum þurfum við að skipta henni upp og hún verður eiginlega í þrennu lagi á morgun. Við kláruðum að mála sameiginlegu rýmin á þriðjudag og ég hef verið að þrífa og hengja upp myndir á veggi síðan þá, á meðan Lilja og Guðrún hafa bakað. Þetta er að hafast. Við leggjum lokahönd á undirbúninginn í dag og svo ætla ég að horfa á úrslitaleik Evrópudeildarinnar með pítsu í annarri. Morgundagurinn verður langur og skemmtilegur, og svo hefst slökunin.
Þar til næst.