Kæri lesandi,

þögnin er yndisleg. Ég geri það sem ég vil. Ég er í miðju svokölluðu foreldrafríi, önnur vika af þremur til að klára sumarfríið mitt og við tímasettum það viljandi þannig að ég færi í frí um það leyti sem stelpurnar byrjuðu á ný í grunnskóla. Þetta var svona tveggja daga hasar í síðustu viku fyrir skólasetningu og slíkt en svo skall þögnin á. Á milli 8 og 16 alla virka daga. Bara ég og konan mín. Tvær fullorðinsraddir, og þögnin þess á milli. Ég hef varla haft kveikt á tónlist eða öðru, og ég hef tekið mér fleiri fegurðarblundi en ég ætlaði mér. Það er gott að leggja sig um miðjan dag, nær því að vera í fríi verður vart komist, en síðasta vika var fullmikið af því góða. Ég skrifaði ekki einu sinni, sem skýrir hvers vegna þessi síða var vanrækt. Í þessari viku ákváðum við að gera okkur dagskrá og vinna að hlutum. Vera fullorðin, ekki bara heima í náttfötunum. Það var fínt í þrjá daga, en ekki lengur. Þannig að nú höfum við komið ýmsu í verk, erum t.d. á leiðinni í Costco innan skamms til að kaupa vörur fyrir september. Allt er þetta þó unnið í skjóli þagnarinnar. Ah, þögnin.

Ég er enn að lesa of mikið. Ég skrifaði um þetta „vandamál“ í upphafi árs og þótt mér hafi gengið ágætlega að draga úr fjölda bóka á þessu ári finnst mér ég þurfa að gera betur. Ég horfði nýlega á myndband þar sem formælandi hélt því fram að lesendur væru að gera sér óleik með því að reyna að innbyrða sem flestar bækur. Ég tók þetta til mín, þetta myndband orðaði vel hvernig mér hefur liðið í sambandi við lestur í nokkur ár núna, eða síðan ég stórjók fjölda bóka sem ég les. Eins og Alexander Pope orðaði það, líður mér stundum eins og „a bookful blockhead, ignorantly read“. Ég les og les og les og man svo mjög lítið af því nema plott og karaktera. Ég get sagt þér hvað gerðist í bók en ansi oft er ég fljótur að týna sjónarmiðunum sem komu fram, tungumálinu sem var notað, og svo framvegis. Annað vandamál við að lesa hratt er að bækurnar líða of hratt hjá. Það getur verið ágætt stundum, þegar maður er að lesa einhverja formúlubókina sem býður upp á spennandi söguþráð og skemmtanagildi en ætlar sér hvorki að eiga dýpra samtal við þig né breyta lífi þínu, en allt of oft hafa frábærar bækur runnið hjá af því að ég var svo niðursokkinn í þær að ég stoppaði ekki til að melta lesturinn. Til dæmis las ég Meistarann og Margarítu yfir helgi í bústað einu sinni og ég man að mér fannst hún alveg frábær en ég gæti varla farið dýpra í hana í dag en það. Á móti tók ég mér rúmlega ár í að lesa A brief history of seven killings eftir Marlon James, og hún er ljóslifandi í huga mér, hlaðin merkingu og mögnuðu tungumáli og persónum. Þegar ég hugsa þetta svona þykir mér augljóst að ég missti af M&m með því að hraðlesa hana.

Hljóðbækur eiga sinn stóra þátt í þessu. Tæknin hefur gert okkur kleift að fylla þagnirnar með stórskemmtilegu efni. Ég hlusta á hljóðbækur í bílnum, á göngu, yfir uppvaskinu og ryksugunni, í ræktinni, og svo framvegis. Í vinnunni hlusta ég frekar á tónlist eða spjallþætti þar sem mér finnst erfitt að innbyrða prósa á meðan ég er að hugsa um vinnuna. Aðalmálið er samt að ég fylli þagnirnar með skemmtiefni og hef þannig stóraukið það magn af bókum sem ég innbyrði. En ég komst líka snemma að því að ég get ekki hlustað á bækur sem hafa vigt, eitthvað sem krefst umhugsunar og smá andrýmis. Ég hlusta aðallega á spennusögur af ýmsu tagi, eitthvað þar sem ég get gengið inn í lögreglurannsókn eða hraða fléttu án þess að þurfa að staldra við til að ímynda mér allar aðstæður. Ég hlusta ekki á fantasíur af sömu ástæðu, þar er verið að færa mér heilan heim skapaðan upp úr engu og ég get ekki komist yfir það á meðan ég vaska upp eða lyfti lóðum.

Ég þarf að minnka hljóðbækurnar. Og spjallþættina. Tónlistin má lifa, en ég þarf að gefa tækninni langt nef og læra á ný að meta þögnina, eiga fleiri samtöl við sjálfan mig, hleypa mér fram fyrir Stephen King & co. í röðinni. Og ég þarf að lesa h æ g a r .

Þetta er verkefni haustsins. Hægja á. Hugleiða. Þegja. Foreldrafríið er fínasta byrjun á þessu verkefni.

Þar til næst.