Hann smeygir sér framhjá fullum bar af ókunnugu fólki þar til hann sér borðin. Hún situr á næstfremsta borðinu og skrunar með þumalfingri á síma í gulu hulstri, alveg eins og hún hafði lofað honum. Hún er jafnvel enn fallegri en myndirnar á Tinder gáfu til kynna. Hann ræskir sig, togar mittismálið á jakkanum til og gengur að henni. Hún lítur upp og brosir, stendur upp og heilsar honum. Þau kyssast, ekki eins vandræðalega og hann hafði óttast en stirt engu að síður. Svo setjast þau andspænis hvort öðru. Hendur þeirra snertast þegar þau leggja þær á borðið í átt að hvort öðru, hlæja vandræðalega. Hann klappar henni á annað handabakið og víkkar bilið á milli sinna svo að hennar komist á milli. Hún brosir svo hlýlega að hann skilur hvers vegna jöklarnir eru að bráðna og þegar hún verður feimin og lítur undan hugsar hann með sér að hann hlakki til, ef kvöldið fer vel, að vera með henni í sóttkví.


Hún veifar þeim öllum í einu þótt sumir gluggarnir á skjánum séu frosnir. Bíður smá og veifar svo aftur. „Hæ,“ og svo aftur, „hæ öllsömul, gaman að sjá ykkur.“ Og svo, „sjáið þið mig alveg?“ Elsti sonarsonurinn svarar en orðin brotna á raflínunum, einhver annar svarar játandi en hún veit ekki hver. Hún telur í flýti, hún er að tala við tólf manns í sjö viðtalsgluggum á fimmtán tommu tölvuskjá og hún þakkar fyrir þráðlausa netið og ljósleiðarann sem var lagður inn í hverfið ári fyrr. Síðast þegar hún reyndi að skæpa við fleiri en einn í einu var hún á svölunum á hótelinu í Tenerife með útsýni yfir golfvöllinn. Þá gat hún bara talað við börnin sín tvö því fólkið var á víð og dreif um Evrópu. Nú eru þau öll stödd á höfuðborgarsvæðinu en sóttvarnarlæknir bannar þeim að hittast. Dóttir hennar spyr hana hvort hún hafi lent í vandræðum með zúmmið – það er það sem skæpið kallast nú til dags – og það fýkur örlítið í hana. Hún spyr enga aðra hvort þau kunni á forritið, bara gömlu konuna. Hún gerir þó ekki mál úr því, minnir sig á að þegar þau tala niður til hennar eru þau að sýna henni umhyggju. Þetta er ákveðin ástarjátning. „Þið lítið öll svo vel út,“ segir hún. „Hvernig líður ykkur? Bjarni, vilt þú ekki byrja?“ Þessi ákvörðun reynist vera mistök. Yngsti dóttursonurinn starir á skjáinn í iPadinum sínum og segir, „ég sakna afa.“ Svo fer hann að gráta. Mamma hans stendur upp frá öðrum skjá og heyrist hlaupa upp stigann til að hughreysta Bjarna. Afi. Hann sem dó í fyrstu bylgjunni, þegar ástandið hætti skyndilega að vera forvitnisfréttir frá Kína og varð að raunverulegri martröð. Hún bíður þolinmóð, hlustar á umhyggju hinna þar til móðir Bjarna birtist að baki honum og tekur utan um hann. Hún bíður færis og þegar Bjarni virðist búinn að jafna sig segir hún, „elsku kallinn minn, ég lofa að þegar við getum munum við heimsækja leiðið hans saman.“


Hún situr í aftursætinu á bíl systur sinnar og spyr sig hvernig í ósköpunum þær eigi að geta haldið tveggja metra regluna hátíðlega í fólksbíl. Þær deila ekki heimili og eru því tæknileg að brjóta reglur. Þær eru á leiðinni í tvítugsafmæli frænku sinnar sem lofaði að aðeins þær nánustu fengju að koma en þegar þær ganga inn um dyrnar hjá henni nokkrum mínútum síðar verður þeim ljóst að frænkan var að ljúga. Húsið er á tveimur hæðum og stappfullt af fólki. Frænkan flýgur í fangið á þeim, þegar vel í glasi og faðmar systurnar innilega. Sér svipinn á þeim og segir, æi kommon þetta er vel undir hundrað manns. Hún spyr sig til hvers hún fari með andlitsgrímu í strætó á hverjum morgni ef hún ætli að láta það yfir sig ganga að djamma með frænku sinni, systur og 96 ókunnugum. Þetta eru óþægilegar aðstæður. Annar valkosturinn er að láta þetta yfir sig ganga og reyna að forðast snertingu, setja upp vínylhanska og passa upp á drykkina sína. Hinn valkosturinn er að snúa við í dyrunum og ganga út. Hún blæs hárið frá andlitinu, minnir sig svo á að hún megi ekki blása svona innan um annað fólk, og svo gengur hún af stað inn í eldhúsið með fullan innkaupapoka af drykkjum.


Kæri lesandi,

ég hef mikið velt því fyrir mér undanfarna daga hvernig eigi að meta allar þær ókunnu og fordæmalausu (þetta orð aftur) aðstæður sem við lendum í núorðið. Ágústmánuður leið án þess að hægt væri að halda fermingarveislur. Mér var boðið í fimm slíkar í vor sem frestuðust allar. Þær voru settar á dagskrá í ágúst en þremur af þeim var frestað á ný. Tveir frændur mínir fermdust fyrir rest en án þess að fá að halda veislurnar sínar. Þeir létu sér köku með sínum nánustu nægja og verða að skulda okkur skemmtun, eins og hin þrjú sem ekki hafa enn fengið að fermast.

Helgina sem þrjár af þessum frestuðu veislum áttu að fara fram fylltist story-ið mitt á Snap og Insta af unga fólkinu sem virðist staðráðið í að djamma frá sér allt vit hvað sem tautar og raular. Eins lengi og partýið inniheldur færri en hundrað manns skal hvergi slegið af. Bjórtjöld, skemmtistaðir, útaðborða eins og ráðherrann sem frægt varð, pósa á myndum með vinum og vinkonum, innilegu faðmlögin og andlit-í-andlit af því að þau elskast öll svo heitt og vináttan er svo gegnheil og frelsið er yndislegt, þau gera það sem þeim sýnist.

Og ég spurði mig.

Ég fór á Subway og keypti mat fyrir fjölskylduna, kvöldið sem Kolla litla fékk að velja hvað ætti að vera í matinn (verðlaun, og hún velur nær alltaf Subway eða Ikea). Ég var heppinn og hitti á nærri því tóman stað en hann fylltist fljótt á eftir mér og ég endaði á að þurfa að hasta á tvær stúlkur undir tvítugu sem hlógu og potuðu í hvor aðra alveg ofan í mér. Degi seinna átti ég erindi í miðbæinn og sá hvergi hanska eða andlitsgrímu á lofti í fjölmenninu. Það var dagurinn sem Reykjavík Pride hefði átt að fara fram.

Og ég spurði mig.

Reglurnar hafa verið uppfærðar jafnóðum. Þær hafa verið hertar, og svo hefur verið slakað á þeim, og svo til baka, og svo framvegis. Þær hafa líka verið gerðar skýrari, meðal annars eftir nokkur hneykslismál. Það er ljóst að við eigum erfitt sem samfélag með að koma okkur saman um hvað reglurnar þýða. Er í lagi að bjóða fullt af ungu fólki heim til sín í partý ef þú heldur fjöldanum undir hundrað manns og allir segjast ætla að virða tveggja metra regluna? Og ef já, af hverju þurftum við þá að skipta upp barnaafmæli Gunnu til að það væru aldrei meira en tuttugu í einu heima hjá okkur? Erum við þau klikkuðu hérna?

Ég spyr mig. Þetta eru skrýtnir tímar, ég sveiflast á milli þess að vera ofurhneykslaður á samfélaginu í kringum mig og þess að gefa fólki séns, segja mér að það sé eðlilegt að við séum mörg hver svolítið ringluð. Sumir vilja taka sénsinn á að þetta sé í lagi, aðrir vilja vera ‘safe’ og forðast samkomur. Og báðir hóparnir ranghvolfa augum á hina.

Ég er í seinni hópnum, ef það er ekki alveg ljóst. Ég sé enga ástæðu til að taka óþarfa áhættur. Og kannski er það vandinn, að mér gremst að aðrir skuli komast upp með að slumpa á þetta þegar ég reyni að vera nákvæmur.

Þar til næst.