Kæri lesandi,

í upphafi árs sat ég nokkur kvöld við vafra og plottaði einhverja skemmtilega haustferð í tilefni fertugsafmælis. Planið var að taka hluta af sumarfríinu í septemberbyrjun og hoppa til N-Ameríku í svona tíu daga. Fyrst íhugaði ég Kanada vel og komst að þeirri niðurstöðu að mig langaði til að heimsækja Toronto. Ég á það land og þá borg alveg eftir. Borgarferðir eiga sérlega vel við mig, mér líður alltaf betur ef ég get horfið í fjöldann í erlendri stórborg, vel það fram yfir hvaða sólarströnd eða túristagildru sem er. Þannig að Toronto hugnaðist mér mjög.

Í upphafi febrúar fæddist annar möguleiki. Ég ætlaði með vini mínum til Kaliforníu, við gældum við að fljúga til Seattle og þræða okkur niður vesturströndina til Los Angeles, með viðkomu í San Francisco. Við ætluðum að fara á ruðningsleiki í báðum borgum og reyna að sjá eins mikið og við kæmumst yfir, þótt tíu dagar nægðu hvergi nærri til að sjá allt það sem vesturströnd Bandaríkjanna býður upp á.

Í öllum okkar plönum stóð til að fljúga út föstudaginn 4. september eða viku síðar, 11. september. En svo skall á heimsfaraldur, og svo kom á daginn að engin þjóð brást jafn illa við þeim faraldri og Bandaríkin, hvar allt er enn í upplausn og allt harðlæst. Við afskrifuðum allar pælingar um vesturferð strax í mars, þegar ljóst var að árið væri meira og minna farið hvað ferðalög varðaði, en ég viðurkenni að nú þegar ég sit hér og hugsa með mér að ég gæti verið að pakka niður og fara snemma að sofa, fullur tilhlökkunar að fara út á flugvöll á morgun á leið vestur, að ég lít til baka yfir þetta ár með meiri eftirsjá en oft áður. Það þýðir ekkert að gráta þetta, við fengum verkefni í hendurnar í ár og höfum gert okkar besta og ferðalög geta alveg beðið, en maður lifandi hvað ég hefði viljað vera á leiðinni til Bandaríkjanna í fyrramálið. Vonandi á næsta ári.

Þess í stað ætlum við hjónin að fara í bústað á morgun. Tveir sólarhringar, bara tvö ein. Mér finnst líklegt að ég verði á stuttbuxum einum fata alla helgina í einhvers konar hámarksslökun. Mikið hlakka ég til. Heiti potturinn er engin Malibu-strönd, og Selfoss er kannski ekki Toronto, en á árinu 2020 er þetta rúmlega meira en nóg.

Þar til næst.