Kæri lesandi,

er hægt að ná of mikilli slökun? Ég held að ég hafi endað þar í dag. Ég vakti til þrjú í nótt, bara eitthvað að hangsa, of latur til að fara strax upp í rúm. Svo vakti vekjarinn mig klukkan átta í morgun, ég hafði gleymt að slökkva á honum. Þannig að ég var frekar tæpur í morgun og átti erfitt með að halda mér vakandi. Ég gafst upp um ellefuleytið og sótti sængina, lagði mig í sófanum. Það var ljúft. Svo sofnaði ég aftur eftir hádegismat, var bara óvart og skyndilega farinn að hrjóta í sófanum með bókina á bringunni. Þegar ég sofnaði svo í þriðja sinn í dag í sófanum, yfir landsleiknum, vaknaði ég hálf reiður út í sjálfan mig. Þrisvar á einum degi í sama sófanum! Ég skammaðist mín bara, bölvaði þessu fríi og þessum bústað og þessum lúxus öllum. Afslöppunin hafði breyst í slydduhátt og ég kunni því illa. Hef eiginlega verið hálf pirraður og neikvæður síðan, hefði helst þurft að hafa sálfræðing á hraðvali sko.

Það er bara ein lausn á þessu. Við förum heim á morgun, svona þegar við nennum, og þá ætla ég að setja sjálfum mér fyrir einhver verkefni. Nú verður eitthvað málað eða pússað eða lagfært!

Fyrst þarf ég samt að vaka aðeins frameftir í kvöld, þessir NBA-leikir eru algjört sælgæti fyrir mann í síðbúnu sumarfríi.

Þar til næst.