Kæri lesandi,

þvílíka úrhellisrigningin í dag. Ég vaknaði í morgun og varð þeirrar ánægju aðnjótandi að geta komið mér á fætur, gert mig kláran í daginn, stundað hugleiðslu og lesið í algjörri þögn, utan hljóðsins í regndropunum sem lömdu á pallinum fyrir utan. Veðrið var svo gott að ég opnaði alla glugga og hurðina út á verönd og hlustaði á regnið. Mæli með þessu.

Ég er að lesa bókina Faceless Killers, hvað sem hún nú heitir upphaflega á sænsku. Þetta er sem sagt bók 1 um lögreglumanninn Kurt Wallander, þann víðfræga, eftir Henning Mankell. Ég hef aldrei lesið Wallander-bók, einfaldlega af því að ég hef aldrei séð þær á íslensku, veit ekki hvort þær voru einu sinni þýddar þrátt fyrir frægð og frama (Kenneth Branagh lék Wallander í samnefndum þáttum). Ég rakst sem sagt á eintak á ensku, notað og frekar skítugt eintak en eintak engu að síður, í Bókakaffinu á Selfossi í gær og sló til. Ég er hálfnaður með þessa stuttu glæpasögu núna og hún leggst vel í mig. Mankell vissi hvað hann var að gera, blessaður.

Við keyrðum svo heim í hádeginu, í hellirigningu. Þetta var stutt en frábær helgarferð hjá okkur hjónum en ég viðurkenni að það var enn betra að koma aftur heim og hitta stelpurnar og köttinn. Heima er best.

Þar til næst.