Kæri lesandi,

þetta er skrifað í hádeginu. Eftir hádegið förum við hjónin í Garðabæinn, hvar við ætlum að hitta lítinn kettling. 15 vikna fress, svartur eins og Tinna. Við ætlum sem sagt mögulega að bæta við okkur ketti, enda Tinna orðin rúmlega þriggja ára og fínn tími fyrir hana að græða leikfélaga á heimilið. Okkur var ráðlagt að fá frekar fress, þar sem hún væri líklegri til að bregðast illa við ef önnur læða kæmi inn á heimilið. Þannig að lítill fress skal það vera, kannski sá sem við hittum á eftir. Stelpurnar vita ekkert af þessu, það verður gaman að koma þeim á óvart.


Í gær birtist loks fyrsti trailer fyrir stórmyndina Dune, sem væntanleg er um jólin þótt líklegt verði að teljast að sú frumsýning frestist vegna kórónaveirunnar. Ég las bókina loks í upphafi sumars, hef lesið fyrstu tvær og ætla að klára þá þriðju (upprunalega þríleik Herbert) áður en ég sé myndina í bíó. Þetta er fyrri mynd af tveimur og þær eru unnar upp úr fyrstu bókinni, Dune sjálfri áður en Herbert ákvað að bæta við söguna. Það verður að segjast að þessi trailer lítur stórvel út, valinn leikari í hverju hlutverki og að hætti Denis Villeneuve er sjónarspilið klárlega magnað. Það stefnir allt í frábæra skemmtun í bíó.

Ég spyr mig samt: hver er tilgangur kvikmyndunar bóka? Svona almennt. Auðvitað finnst okkur gaman að sjá bestu bækurnar á stóra tjaldinu, þar sem einhverjir aðrir hafa lagt mikla fjármuni og enn meiri vinnu í að reyna að færa ímyndunarafl okkar yfir á sjónrænt svið. Þegar vel tekst til eru slíkar kvikmyndir gjöf sem við þiggjum fagnandi og lifum með ævilangt, en þegar illa tekst til er lítið annað að gera en yppa öxlum og minna sig á að við eigum alltaf bókina góðu. En spurning mín er þessi: erum við að ætlast til of mikils af kvikmyndun bókar? Getur Dune 2020, eins vel og hún lítur út, í leikstjórn hins frábæra Denis Villeneuve, nokkurn tímann staðið undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar? Getur þessi mynd mögulega fært okkur sömu vigt og hin magnaða bók gerði?

Svarið er augljóslega nei. Að mínu mati stenst kvikmynd aldrei samanburð við bók þegar kemur að dýpt, maður getur einfaldlega eytt of miklum tíma í of mikilli nálægð persóna og söguheims á blaðsíðum bókar til að jafnvel þriggja tíma kvikmynd standist samanburð. En kvikmynd getur á móti fært okkur aðra hluti, sjónarspilið er meira og í sambland við frábæra tónlist, búninga o.sv.frv. getur kvikmyndin spilað á aðra strengi en bókin gerir. Ef bókin er píanó og söngur þá getur kvikmyndin verið strengjasveit. Tvær ólíkar leiðir til að útsetja sama, fallega lagið.

Allavega. Við skulum ekki leggja á Dune 2020, eða öðrum væntanlegum stórmyndum, þá byrði að eiga að skila öllu því sem bókin gerði. En mikið hlakka ég til sjónarspilsins. Það er ekki hægt að borða poppkorn yfir góðri bók.

Þar til næst.