Kæri lesandi,

fyrrnefndur fundur fór vel á fimmtudag og við hjónin komum heim með lítinn kettling, 15 vikna fress sem fundist hafði í fjósi á Suðurlandi fyrr í sumar og verið í nokkrar vikur hjá fósturmömmu í Garðabæ. Við gáfum honum nafnið Sammi (sem passar við nafnið Tinna, án þess að vera fónetískt of líkt svo að þau þekkja muninn og vita hvort þeirra er verið að kalla á).

Sammi er lítill hornamaður, fyrst og fremst. Hann eyddi fyrsta sólarhringnum eða svo í miklu tráma, eins og eðlilegt er á nýjum stað innan um ókunnuga risa og kött sem hvæsir. Tinna kunni ekki við þessa viðbót til að byrja með en hún er að venjast. Nema hvað, hornamaðurinn er einstaklega laginn við að koma sér í öll skúmaskot í húsinu og við höfum mátt snúa ýmsu við til að ná honum fram á ný. Lengst gekk það síðdegis á föstudag þegar ég þurfti bókstaflega að taka hornsófann í stofunni í sundur til að ná honum innan úr öðrum arminum. Hann er þó að venjast okkur og hættur að flýja í hornin við minnstu hreyfingu. Svo kemur á daginn að hann er mjög kelinn eins og Tinna og finnst fátt betra en að grafa sig ofan í handarkrika eða undir sæng. Ég held að Sammi litli muni reynast góð viðbót við heimilið.

Á morgun fer ég í vinnu aftur eftir þriggja vikna frí. Þetta hafa verið góðar og drjúgar vikur en eins og með allt gott frí þá er maður hálf feginn þegar því lýkur. Ég hlakka til að komast á brautina í fyrramálið og í vinnu, finna til sjálfs mín á ný fyrir utan veggi heimilisins. Svo ætla ég að setja mér nokkur markmið, til dæmis að vera duglegri á ný að uppfæra þessa vefsíðu, og svo ætla ég að gæta sérstaklega vel að skrefafjöldanum næstu daga en það meðaltal hefur algjörlega hrunið í fríinu.

Snemma að sofa í kvöld, vinna á morgun. Þetta er lífið.

Þar til næst.