Kæri lesandi,
fyrsti vinnudagurinn gekk stórslysalaust. Ég kveikti ekki í neinu, týndi engum fjárhæðum, móðgaði engan. Þetta var frekar tilbreytingarlaust. Ákveðin vonbrigði.
Síðdegis fór ég svo í gönguhóp að boði vinar míns. Við gengum tæpa sex kílómetra á klukkutíma sem er sæmilega rösklegt. Ég hef ekki gengið svona langan hring í nokkra mánuði og að sjálfsögðu var ökklinn hægra megin með skæting, hann ætlar seint að fyrirgefa mér fótbrotið í fyrra og nauðungarkyrrsetuna. Það er eins gott að hann þarf ekki að bera andlitsgrímu, þá fyrst yrði allt vitlaust.
Í kvöld elduðum við svo dýrindis kjúkling með steiktu grænmeti og einhverri algjörri gúrmetistómatsósu úr krukku. Ég ákvað í gær, eftir að hafa horft á nokkra þætti af Chef’s Table: BBQ á Netflix, að mig langaði í alvöru tómatsósu með grilluðum kjúkling. Ég fór í þrjár verslanir í gær og fann loks eina sem leit ansi vel út, einhverja innflutta glerkrukku með chunky & spicy tómatsósu. Hún var prófuð í kvöld og Jesús Kristur á kexi hvað þetta var gott! Ég er formlega tómatsósusnobbari.
Þar til næst.