Kæri lesandi,
í nóvember 2016 fór ég vestur á Ísafjörð til að vinna í nokkra daga. Ég hafði tekið að mér aukaverkefni fyrir fyrirtækið okkar og var sendur með per diem vestur, hvar hótelherbergi beið mín. Ég kom á mánudegi og fór heim á fimmtudegi. Ég vann myrkranna á milli en þess utan skrifaði ég.
Sérstaklega er mér miðvikudagskvöldið minnisstætt. Þá var þriggja daga vinnutörnin eiginlega búin og ég losnaði um kvöldmatarleytið. Ég fór upp á hótelherbergi í sturtu, skipti um föt og rölti svo út á Húsið til að borða kvöldmat og skrifa eitthvað frameftir. Þarna var fyrsta skáldsagan mín nýkomin út og það var mikill meðbyr í því að vita af henni útsettri á borðum allra bókabúða og víðar. Ég var á kafi í sögu tvö og ég man vel eftir þessari kvöldstund. Ég man meira að segja hvað ég borðaði, á meðan ég hlustaði á klassíska tónlist í heyrnartólum og skrifaði eins og ég fengi borgað fyrir það (sem ég gerði þá ráð fyrir að væri rétt handan við hornið).
Ég sat þarna í rúma tvo tíma ef ég man rétt, pantaði eftirrétt líka. Svo steig ég út í kalt nóvemberloftið og rölti allt að því alsæll upp á hótelherbergi. Þar skrifaði ég enn meira með fartölvuna í fanginu á meðan kosningavaka RÚV byrjaði að rúlla á litla sjónvarpinu uppi í horni herbergisins. Eins og gerist jafnan fjaraði skrifgetan út, ég var tæmdur í bili svo að ég lokaði tölvunni og sneri mér að kosningavökunni. Hillary Clinton var með forskot á Donald Trump, en það var mjótt á munum. Allt benti til þess að Clinton myndi hafa betur þegar ég fór að sofa upp úr miðnætti, dauðþreyttur eftir vinnutörnina og meðvitaður um að ég ætti eftir að keyra suður daginn eftir.
Ég hafði drukkið óhóflega af vökvum um kvöldið svo að ég vaknaði um miðja nótt til að létta á mér, blaðran krafðist þess. Herbergið var almyrkvað, slökkt á öllu og ég sá ekki handa minna skil þar sem ég prikaði mig fram á baðherbergi og reyndi mitt besta til að vakna ekki. Þegar ég kom til baka settist ég á rúmbríkina, teygði aðeins úr mér og ætlaði svo að leggjast þegar síminn minn lifnaði við á náttborðinu. Birtan var svo skær að ég varð að lækka birtustigið niður í lægstu stillingu áður en ég gat reynt að píra á skjáinn og spyrja mig hver væri að senda mér skilaboð um miðja nótt. Þá sá ég að ég hafði fengið nokkur SMS, skilaboð á Facebook og Twitter og víðar síðan ég fór að sofa. Ég prikaði mig inn í þessi forrit og las skilaboðin ein af öðru. „Ertu að sjá þetta?!“ spurði einn. „Fokk hvað þetta er sturlað!“ sagði annar.
Ég kveikti aftur á sjónvarpinu í snarhasti og þar blasti hörmungin við. Donald Trump hafði siglt fram úr Hillary Clinton þegar leið á nóttina og hafði verið kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Eftir á að hyggja urðu einhvers konar kaflaskil þarna. Ekki bara í bandarískri stjórnmálasögu heldur hjá mér persónulega. Ég fór til kollega minna á Ísafirði um morguninn í kaffi þar sem við hristum hausinn saman yfir ruglinu vestan hafs, svo settist ég upp í bíl og keyrði suður. Þegar ég steig út úr bílnum átti ég erfitt með að halda áfram með handritið sem ég hafði flogið yfir kvöldið áður. Að mér sótti einhver kvíði, skyndilega var glasið hálftómt og í stað þess að nýta hvatninguna sem fylgdi þeirri ánægju að hafa gefið út fyrstu bók sá ég bara neikvæðu hlutina; hún seldist ekki nógu vel, einn gagnrýnandi af nokkrum skrifaði að mér fannst heimskulega gagnrýni, útgefandinn var með vesen, ég efaðist um að nýja handritið væri eitthvað sem ég réði við eða ætti hreinlega að vera að skrifa um, og svo framvegis. Ég hrasaði í raun og rann af stað niður brekku og grunaði ekki að ég væri hér enn, fjórum árum seinna, á fleygiferð niður sömu brekku.
Mér finnst ótrúlegt að kjörtímabil Donald Trump sé að verða búið. Fjögur ár, hvert hefur tíminn flogið? Þetta hefur verið ótrúlega langt kjörtímabil, það hefur svo mikið gengið á vestan hafs og hlutirnir hafa versnað svo hratt að maður hugsar til dæmis um það þegar hann var kærður af þinginu fyrir brot í starfi eins og það hafi gerst fyrir mörgum árum, þótt það séu tíu mánuðir síðan. 2020 hefur svo auðvitað verið lengsta ár sögunnar. Nú er Trump að sigla að endurkjöri gegn Joe Biden, kjör sem ég tel að verði ekki stoppað af ýmsum ástæðum, en það er önnur umræða. Hann hefur allavega verið forseti í næstum fjögur ár, það eru að verða komin fjögur ár síðan ég vaknaði upp við þessa martröð í almyrkvuðu hótelherbergi á Ísafirði.
Sú nótt var fyrir tæplega 47 mánuðum síðan. 47 mánuðir. Fjörutíu og sjö. Ég kláraði handritið á endanum og sendi á forlögin. Fékk synjanir til baka. Of skrítið, og stefnulaust, o.sv.frv. Ég vissi það svo sem alveg, og það má segja að synjanirnar hafi klárað niðurbrot rithöfundarins. Ég hef nánast litið á sjálfan mig sem fyrrum rithöfund síðan þá, í upphafi árs 2019. Síðan þá eru liðnir 21 mánuður og ég hef varla skrifað staf utan þessarar dagbókar, og ekki svo mikið sem setningu af skáldskap, á þeim tíma.
Oft hefur mér fundist eitthvað vera að gerast hjá mér. „Kannski brestur stíflan núna,“ spyr ég sjálfan mig og opna skjal. Loka því svo aftur hálftíma síðar, tómu. Ég er með um það bil tíu skjöl í möppu sem innihalda öll orðið „Blah…“ og ekkert annað. Lengra hef ég ekki komist. Samt herja sögurnar á mig, persónurnar kalla á athygli og hjálp. Þær láta mig ekki í friði. Ég svara þeim, veifa hendi og segi, „sorrý, sögurnar ykkar eru verðugar en ég er ekki maðurinn til að skrifa þær.“
Ég hef lofað sjálfum mér að ég muni setjast aftur að borðinu, reyna aftur. En ég hef líka lofað sjálfum mér að pressa ekki sjálfan mig til þess. Þegar það gerist verður það að vera á réttum forsendum, og þær forsendur þurfa að vera fyrst og fremst af því að mig langar til þess og af því að ég held að það verði gaman. Mér finnst tilgangslaust að setjast fullur örvæntingar við handrit, þá hef ég tapað fyrir sjálfum mér áður en leikar hefjast.
Fyrst og fremst langar mig til að enduruppgötva tilfinninguna sem ég hafði miðvikudagskvöldið 9. nóvember 2016, þar sem ég sat á veitingastað og skrifaði fram eftir kvöldi og mér fannst ég vera gjörsamlega ósigrandi.
Þar til næst.