Kæri lesandi,

við skiptum liði í gærkvöldi; ég fór með Gunnu á æfingu í Haukahúsinu á Ásvöllum, hún vildi prófa karate og fór í sinn fyrsta tíma eftir kvöldmat. Á sama tíma fór Lilja með Kollu og vinkonu hennar í sundtíma í Ásvallalaug. Ég talaði við karatekennarann og kom Gunnu inn í tíma, en þar sem foreldrar mega ekki vera inni þá fór ég í stuttan göngutúr um hverfið og endaði inni í Ásvallalaug, á hinum enda bílastæðisins, þar sem ég laumaði mér upp á pall og fylgdist með Kollu busla og synda. Svo sá ég konuna mína þar sem hún sat álengdar, fullklædd, og ræddi við aðra mömmuna, nágranna okkar. Ég fylgdist með henni ofan af pöllum í smá stund, konunni minni sem vissi ekki af mér, og ég hugsaði með mér hversu heitt ég elskaði þessa konu. Svo fann ég dóttur mína á ný, í þetta sinn var hún komin upp hringstigann og beið eftir að skella sér niður stóru vatnsrennibrautina, og ég fann hvað ég elskaði hana heitt líka. Því næst gekk ég út úr sundlauginni og yfir götuna þar sem ég fann þriðju konuna mína og horfði úr fjarlægð inn í salinn þar sem hún æfði spörk og sippaði, og fannst ég vera að springa úr ást og ríkidæmi.


Í gærmorgun dó maður sem ég þekkti eitt sinn, en hafði ekki hitt lengi. Hann var giftur móðursystur minni og þegar ég var ungur og við bjuggum úti á landi gistum við alltaf hjá þeim þegar við komum suður. Ég var tíður gestur á heimili hans og fannst hann fínasti kall, sköllóttur og limalangur með rólegt yfirlæti og pípuna sína sem hann reykti bara úti á svölum. Ég man eftir stólnum hans, svaf stundum í rúminu hans með mömmu og frænku minni, borðaði matinn þeirra og kom honum til að hlæja með krakkastælum. Um síðustu aldamót fór ég til Bandaríkjanna, bjó þar í nokkra mánuði þar til allt hrundi og ég kom heim. Þá vorum við fjölskyldan löngu flutt í Hafnarfjörðinn og ég, ungur maður, kom heim og sá að móðursystir mín svaf í herberginu mínu. Hún hafði skilið við manninn sinn og nú var komið að mér að launa henni fyrir gestrisnina. Hún svaf inni hjá mér og ég bjó um mig uppi á svefnloftinu í bílskúrnum. Fyrrverandi manninn hennar sá ég sjaldan eftir það, síðast rakst ég á hann fyrir nokkrum árum í bænum með dætrum sínum og barnabörnum, frændfólki mínu. Þá heilsaði ég honum með handabandi, brosti til hans og sagði, gaman að sjá þig. Sömuleiðis, sagði hann, og nú er hann farinn. Enn einn hlekkur í fortíðarkeðjunni rofinn.

Hann var rúmlega 76 ára, þessi væni maður. Það er auðvelt að muna hversu gamall hann var af því að hann fæddist 17. júní 1944, daginn sem Ísland öðlaðist sjálfstæði. Og nú verður hann ekki eldri, maðurinn sem var jafngamall lýðræði landsins. Hér skilja leiðir.


Þegar ég var unglingur gáfu Blur út plötuna 13. Fyrsta lag plötunnar heitir „Tender“ og ég man þegar það var fyrst spilað í útvarpi. Ég ætlaði ekki að trúa þessu lagi, mér fannst það ömurlegt, skildi ekki hvað í andskotanum Damon Albarn og félagar voru að pæla að gefa út langa gospelballöðu, og það nýbúnir að leggja heiminn að fótum sér með „Song 2“ og „Beetlebum“ (besta Blur-laginu). Það fylgdi sögu lagsins að Albarn var nýhættur með konu sinni og þurfti að tjá sig um þessa erfiðu lífsreynslu, en ég var bara nítján ára og tengdi minna en ekkert við þetta væl í honum.

Í dag skil ég lagið miklu betur. Mér finnst það frábært. En ég þurfti að upplifa ýmislegt til að geta tengt við lagið. Stinnt kjötstykkið þurfti að vera lamið aðeins, meyrt almennilega, áður en það gat skilið hvað það þýðir að vera tender. Lífið er trunta, við getum ekkert annað en þraukað veturinn og dafnað þegar sólin brosir við okkur eins og blómin, ástin er það frábærasta í lífinu. Damon Albarn reyndi að segja mér þetta fyrir tuttugu árum. Nú skil ég.


Í dag og á morgun ætla ég að renna í gegnum plötur Deftones í tímaröð, til að hita upp fyrir nýju plötuna Ohms sem kemur út á föstudaginn, og ég er ansi spenntur fyrir. Þetta verður góð yfirferð. Spennan eykst. Síðar í dag ætla ég svo með Gunnu í líkamsrækt fyrir krakka og tíma í taekwondo. Hana langar að prófa þetta allt, og svo ætlar hún að velja úr fyrir næstu viku. Verður hún næsta Crossfit-stjarna, eða svartbeltingur í karate eða tækvondó? Spennan eykst.

Þar til næst.