Kæri lesandi,
“I’ve finally achieved balance,” syngur Chino Moreno í opnunarlagi nýjustu plötu Deftones, Ohms, sem kom út í gær. Ég hef ekki hlustað á neitt annað, hef nýtt hverja eyðu í stundarskránni til að halda áfram með nýjustu lög meistaranna á lúppu. Það er með ólíkindum hvað þeir hafa góð tök á því sem þeir eru að gera. Í ár er kvartöld síðan Adrenaline kom út og þeir hafa nánast aldrei fallið mikið neðar en svona 3,5 stjörnur af 5. Það er botninn hjá þeim, sögulega. Persónulega finnst mér þeir hafa gefið út fjögur meistaraverk af átta breiðskífum í það heila, og hinar fjórar eru ekkert mikið síðri, sko. Ohms er níunda breiðskífa Deftones og ég hlakka til að staðsetja hana í kanónunni, hvort hún verður fimmta meistaraverkið eða ekki, en það kemur síðar. Núna dansa ég og syng með snilldartöktunum.

Moreno talar í nýlegum viðtölum um hvað sálfræðitímar hafa gert honum gott. Hann sagðist hafa ákveðið út í loftið að prófa og fundið kraftinn sem býr í því að sitja tvisvar í mánuði með ókunnugri fagmanneskju og tala opinskátt, án nokkurrar hræðslu og hindrana, um sjálfan sig, sínar upplifanir og atburði, líðan og sambönd, hegðun og hræðslu. Ég er á því að þessi bylting í andlegri tilveru Moreno heyrist á Ohms, textarnir eru opnari og fullorðinslegri einhvern veginn, fyrir mann sem er vanur að syngja mest um kynlíf þá er allavega bæði pólitískari og meira djúpþenkjandi þráður í orðum hans hér.
Ég get alveg tekið undir með honum. Ég fór í fjórða skipti í ár til sálfræðings í vikunni. Ég stýri för og ræð hvað við ræðum, í þetta sinn köfuðum við djúpt í tvö hugtök, fullkomnunaráráttu og skömm. Tíminn var svo kraftmikill, hún stýrir mér fimlega og passar að ég hlaupi ekki á veggi, svo að útkoman verður jafnan hálf mögnuð. Í þetta sinn leiddi hún mig að hugljómun sem var svo mögnuð að mig svimaði eftir að ég sagði orðin upphátt. Það er mikill kraftur í slíkri vinnu. Upphaflega, í upphafi árs, fór ég af því að mér fannst eitthvað bjáta á, eitthvað sem þyrfti að laga eða leiðrétta, en eftir því sem tímunum fjölgar hef ég frekar fundið kraftinn og gróðann sem felst í þessu. Þetta hjálpar, en þetta bætir líka. Fólk ætti ekki síður að fara þegar allt er í stakasta lagi, frekar en að nota svona fagþjónustu bara sem eitthvað hálmstrá þegar allt er í óreiðu.

Deftones-dagur var sem sagt í gær. Ég hlusta mjög mikið á tónlist, bæði það sem ég þekki vel og eins reyni ég að heyra eitthvað nýtt eins oft og ég get. Tvær hljómsveitir standa þó upp úr hjá mér eins og háhýsi yfir úthverfi, Tool og Deftones. Ég ákvað í raun aldrei að Tool væri uppáhalds hljómsveitin mín, það gerðist bara því ég hlustaði svo ógeðslega mikið á þá, ár eftir ár og fékk aldrei leið. Þeir gefa sjaldan út plötur og þær eru alltaf magnaðar. Að mínu viti hafa fjórar af fimm plötum þeirra frá árinu 1993 (ég sagði að þeir gæfu sjaldan út) verið meistarastykki, bara fyrsta platan Undertow er undanskilin. Ég þurfti kannski ekkert að ákveða neitt þegar Tool eru annars vegar, snilldin var óneitanleg. Þeir gáfu mér ekkert val.
Deftones valdi ég hins vegar strax þegar ég heyrði þá fyrst. Bekkjarbróðir minn í Verzló spurði eitt sinn haustið 1997 hvort við hefðum heyrt í þessari hljómsveit, Deftones. Ég man enn hvað hann sagði, hann sagði að það væri hressandi að heyra í hljómsveit sem sparkar svona áreynslulaust í rassinn á manni. Ég rölti þann daginn eftir skóla yfir í Kringluna, inn í Skífuna sem þá var og hét, og fann nýútkomna aðra plötu sveitarinnar, Around the Fur. Ég fékk að prufuhlusta á hana í búðinni og stóð þar með heyrnartólin á þegar fyrsta lagið, “My Own Summer (Shove It)” fór af stað. Það tók í alvöru svona þrjátíu sekúndur, þá var ég búinn að ákveða að þetta væri nýja uppáhalds hljómsveitin mín. Ég hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun.
Tool gaf út í fyrra eftir þrettán ára fjarveru. Ég er enn að melta það stórvirki, og nú hefur fyrsta plata Deftones í fjögur og hálft ár bæst við. Þetta er einfaldlega veisla fyrir eyrun. Ég hlusta á þessar plötur til skiptis á meðan ég sinni smá eftirvinnslu eftir síðasta sálfræðitíma.

Þar til næst.