Kæri lesandi,

það er formlega kominn vetur á Íslandi. Skítt með vetrardaginn fyrsta, í dag voru aðgerðir hertar á ný vegna kórónaveirunnar. Líkamsræktarstöðvar eru lokaðar, barir líka, aðeins tuttugu manns mega koma saman og meira að segja IKEA hafa lokað stærsta veitingastað landsins.

Þetta er bágborið ástand. Eftir hálfgert diet sumar þar sem við gátum gert sumt en ekki allt af því sem okkur finnst gaman að gera á sumrin er í raun búið að skella landinu í lás á ný. Og það ekki af ástæðulausu, fjöldi nýgreindra smita á hverjum degi er uggandi og hætt við að útbreiðslan verði stjórnlaus ef ekki verður eitthvað að gert, skv. þríeykinu fræga.

Þríeykið talar einnig um að landið þjáist af farsóttarþreytu. Það finnst mér ágætis nýyrði, skráum það hér með undir falleg orð. En þótt orðið sé fallegt verð ég að mótmæla farsóttarþreytu sem hugtaki. Við erum öll þreytt á ástandinu en það er ekkert við því að gera. Við verðum bara að bíta á jaxlinn og þrauka þetta. Fyrir okkur sem lesum er jólabókaflóðið t.d. að skella á og íþróttir í sjónvarpinu. Þetta reddast.


Ég hef legið svolítið yfir fréttum af ástandinu vestan hafs. Forseti BNA er kominn inn á spítala með veiruna, sem ætti að öllu réttu að vera endanleg falleinkunn á störf hans í embætti. Ef verndaðasti maður heims getur ekki haldið sjálfum sér frá veirunni, hvernig þykist hann þá ætla að vernda hinn almenna borgara?

Síðustu vikur hafa einkennst af hávaða og ringulreið vestra. Og það sem verra er, þær virðast bara vera byrjunin, en greinar eins og þessi hér fjalla ítarlega um hvað gæti gerst eftir kjördag þegar það eina sem við vitum um forsetann rætist, nefnilega það að hann mun aldrei viðurkenna ósigur. Slíkt gæti steypt landinu í stjórnarkreppu af áður óþekktum stærðargráðum. Raunir held ég að það sé nær pottþétt að eitthvað slíkt gerist, við fáum allavega ekki bindandi niðurstöður í þessi mál daginn eftir kosningavöku. Þetta verður eitthvað klausturfokk fram í janúar.


Ég hef, í ljósi smithættu og lokana líkamsræktarstöðva, verið ötull göngugarpur að undanförnu. Ég hef líka skoðað tölfræðina við það tækifæri. Síðasta mánuðinn hef ég gengið meira, og oftar, en í heilt ár þar áður. Það er ansi ömurleg tölfræði, ég klappa mér á bakið fyrir góðan septembermánuð í labbi en sparka um leið í afturendann á sjálfum mér fyrir síðustu misseri. Í gærmorgun gekk ég 6km hring um Hafnarfjörð með bræðrum mínum, það var ansi hressandi og gefandi. Í dag hvíli ég (labba styttri hring) og á morgun fer ég næsta stóra hring. Það þýðir ekkert annað til að vega upp á móti allri þessari inniveru sem er framundan í skammdeginu.


Október. Við komumst þetta langt, alveg eins gott að klára árið úr þessu. Það er kominn nýr litur á síðuhausinn, haustlegt ryð. Ég hef ekki uppfært þessa síðu nógu reglulega í ágúst og september en stefni á að gera betur í október. Það er það eina sem breytist aldrei í þessu lífi, maður ætlar sér alltaf að gera betur næst.

Þar til næst.