Kæri lesandi,
í dag eru fjögur ár liðin frá útgáfuhófi skáldsögu minnar. Þann dag bauð ég fólki í Eymundsson í Mjóddinni, sem er eitt aðalsögusvið bókarinnar, til að fagna með mér þessum áfanga. Útgefandinn bauð upp á drykki og súkkulaðimola og mikið af góðu fólki mætti, aðallega fólk sem ég þekki en sá stuðningur var dýrmætur, og svo eitthvað af áhugasömum bókabéusum líka. Ég sat við borð, klæddur eins og mér fannst rithöfundar eiga að klæðast, og áritaði bækur og gaf knús (ó, veröld sem var). Svo flutti ég stutta tölu, þakkaði fjölskyldu minni og útgefanda, og las stuttan kafla úr bókinni, áður en ég leyfði mér að ganga á milli og heilsa almennilega upp á fólk, spjalla. Að lokum var botninn sleginn og ég fór heim ásamt konu og dætrum, hvar ég hrundi niður í sófann og horfði á Ísland vinna Finnland í fótbolta. Þetta var ansi góður dagur.
Bókin fór í kjölfarið inn á metsölulistana hér heima, entist þar í heilar tvær vikur áður en jólabókaflóðið skall á og sópaði minni spámönnum til hliðar. Bókinni gekk samt ágætlega, fékk meira af jákvæðum dómum en neikvæðum og seldi nóg til að koma út á sléttu, sem mér var sagt að væri raunhæft fyrir nýja höfunda. Ég var gestur á tveimur bókmenntahátíðum um haustið, sat uppi á sviði ásamt heimsfrægum rithöfundum og blandaði geði við mikið af heillandi listafólki. Þetta voru spennandi og skemmtilegir tímar, svo spennandi og skemmtilegir að það hvarflaði ekki að mér að fjögur ár myndu líða án þess að næsta útgáfa væri í sjónmáli.
Þau liðu nú samt og ég er engu nær. Ég skrifaði skáldsögu, var raunar byrjaður að skrifa hana haustið 2016, en þremur árum seinna lauk þeirri vinnu með ósigri í ársbyrjun 2019. Ég gafst upp, hafði barið höfðinu við steininn of lengi, sagan of skrítin sögðu útgefendur og afþökkuðu, og ég hafði hvorki orku né áhuga til að eyða fjórða árinu í að reyna að grafa mig úr ógöngunum.
Engu að síður hugsa ég nú með hlýju til þessa tíma fyrir fjórum árum. Vonandi auðnast mér að eiga slíkar stundir aftur á næstu árum, þótt langt virðist í land núna þá veit ég af fenginni reynslu að það getur verið fljótt að breytast. Vonin lifir.
Jólabókaflóðið er annars að hefjast, enn eitt árið. Ég hef þegar mælt út eina íslenska bók sem ég hlakka mikið til að lesa, það er nýjasta skáldsaga Sigríðar Hagalín, en ég hef verið mjög hrifinn af fyrstu tveimur bókum hennar. Svo koma auðvitað glæpasögurnar, þær fæ ég allar sendar til mín og les af áfergju yfir vetrarmánuðina, enda verður þetta síðasta árið mitt í dómnefnd glæpaverðlaunanna. Ég hlakka til að takast á við bókabunkann einu sinni enn, en ég hlakka líka svolítið til að vera búinn með þetta.
Ég hef lesið eitthvað af bókum nýverið, erlendum bókum aðallega eins og venjulega þegar íslensku bækurnar nálgast, vitandi að ég mun ekki lesa mikið útlenskt næstu 3-4 mánuðina. Því miður hefur ekki mikið af þessu verið af háum gæðum finnst mér en ég var þó að klára fantasíuglæpasöguna Jade City eftir Fonda Lee, sem mér fannst alveg frábær. Hún er fyrsta bók í þríleik, eins konar Godfather-saga sem gerist í tilbúnu borgríki sem minnir á Hong Kong á áttunda áratugnum, með aðra útgáfu af Tævan sitjandi í flóanum fyrir utan borgina. Þetta var algjörlega frábær bók sem hitti í mark á alla vegu, að mér fannst. Jade War, önnur bókin í þríleiknum er þegar komin út og ég ætla að reyna að lesa hana eins fljótt og ég kemst til þess, áður en lokabókin Jade Legacy kemur út haustið 2021. Mér fannst Jade City allavega frábær og mæli heilshugar með.
Þar til næst.