Kæri lesandi,
ég velti fyrir mér hvernig við munum koma til með að muna þennan faraldur sem hefur gert allt skrítið, lagt margt á hliðina, kostað mannslíf og ógnað flestum okkar á árinu sem nú er langt komið. Ég sat í morgun, áður en ég hóf störf hér á skrifstofunni, einn í myrkrinu og þögninni og leyfði huganum að reika aðeins. Þá var ég nýbúinn að ganga um myrkvaða skrifstofuna og sótthreinsa alla sameiginlega snertifleti og skrifborðið mitt líka, og hugurinn leitaði að vorinu sem virðist svo fjarlægt núna. Við erum skyndilega komin í svipað ástand, það er mars á ný sögðu fleiri en ein manneskja við mig í gær. Og það er líka alveg satt, við sem höfðum kannski í einfeldni leyft okkur að hugsa að faraldurinn væri þróunarverkefni, að við gætum byrjað á núllpunkti (öllu harðlæst í marsbyrjun) og unnið okkur smám saman út úr myrkrinu og í ljósið á ný, stöndum nú frammi fyrir nöturlegum raunveruleikanum, að við munum reglulega vera send til baka á upphafsreit, að leitin að ljósinu verður síendurtekin næstu misserin. Þessi þriðja bylgja verður lögð að baki með skynsemi og þrautseigju, þolinmæði og stöðugleika, en eins er víst að við munum mæta fjórðu og fimmtu bylgjunni á sama hátt; aftur á núllpunkti. Þessu lýkur ekki nærri því strax.
Ég sat í myrkrinu í morgun og reyndi að hugsa til vetrarloka, að hálfu ári liðnu. Sennilega sóttu minningarnar á mig af því að vöðvaminnið tók við sér þegar ég dauðhreinsaði skrifstofuna í fyrsta sinn síðan í vor. Ég velti fyrir mér hvernig þessi faraldur mun sitja í okkur svo árum skipti, jafnvel þegar þessu er endanlega lokið. Ég fann í morgun að ég átti erfitt með að muna allt sem gerðist í ársbyrjun; ég gat framkallað sumt eins og tilfinninguna að sitja í Kringlunni helgina áður en allt skall í lás og finnast ég vera að kveðja eðlilegheitin, skilja við veröldina sem var, að sinni að minnsta kosti. Ég man öll kvöldin og stundirnar sem ég átti með fjölskyldunni þar sem veður leyfði ekki mikla útiveru og fátt annað var í boði en að skemmta hvort öðru. Eina vikuna horfðum við á allar Mission: Impossible-myndirnar, aðra vikuna voru öll púslin á heimilinu lögð á borðið, eitt af öðru, þriðju vikuna elduðum við Lilja eitthvað nýtt og framandi fyrir stelpurnar á hverju kvöldi, sannkallað tilraunaeldhús. Tíminn leið og við gerðum okkar besta.
Sumt man ég þó ekki. Til að mynda finnst mér örvæntingin hulin þoku, eins og ég hafi verið að dreyma alla hræðsluna við veiruna, hræðslu sem smám saman fjaraði út uns maður skreið feginn úr fylgsni í maí, hræðslu sem hefur nú snúið aftur með látum. Í nótt dreymdi ég að ég væri með veiruna, að ég sæti heima hjá mér í herberginu sem við höfðum úthlutað sem einangrunarherbergi í vor, ef illa færi fyrir einhverju okkar. Í draumnum sat ég í rúminu, einn og horfði út um gluggann, setti inn stöðuuppfærslur á Facebook til að leyfa vinum og vandamönnum að fylgjast með ferlinu, gerði öndunaræfingar og lá mikið á maganum til að hjálpa lungunum að fá loft. Í draumnum gat brugðið til beggja vona og þegar ég vaknaði í morgun var ég ekki búinn að fá úr því skorið hvort veiran fór illa með mig eða ekki. Svo sat ég í myrkrinu á skrifstofunni og velti báðum möguleikum fyrir mér. Ætli 2020 sé mitt síðasta ár eftir allt? Eða er kvefið sem ég hef haft síðustu daga mín kórónaveira, og ég tók varla eftir því? Eða snertir þessi veira mig aldrei fyrr en ég geng feginn inn á heilsugæslu eftir hálft ár eða ár og þigg sprautuna góðu?
Ég veit það ekki, en ég skráset minningarnar í rauntíma. Ég hugleiði þær á kvöldin, anda með þeim á morgnana, tek þær með mér í göngutúra og sturtuklefann og uppvaskið og bílinn, safna þeim í jakkavasann yfir daginn og reyni að flokka þær jafnóðum. Það hjálpar að vélrita sumar þeirra á skjáinn og ýta á „Birta“, ég hef þegar haft gagn af því að fletta fyrstu faraldursfærslunum upp hér á vefnum. Restin hverfur í þokuna í höfði mér uns tíminn leiðir í ljós hverjar þeirra ég get framkallað að nýju og hverjar ekki.
Þannig týnist tíminn. Þannig líða dagarnir. Þannig lifum við af heimsfaraldur; einn djúpan andardrátt í einu, og meðfylgjandi hugsanir skrásettar jafnóðum.
Þar til næst.