Kæri lesandi,
ég ákvað að ganga hring í Sandgerði að vinnu lokinni í gær. Ég hef unnið á skrifstofunni suður með sjó í bráðum ár en aldrei farið í göngutúr um svæðið. Í gær fannst mér Sandgerði sérstaklega lokkandi, veðrið dásamlegt og bjart yfir, þannig að ég lagði af stað, kveikti á úrinu svo að Apple gæti örugglega mælt og skrásett þessa hreyfingu mína. Tæpum kílómetra síðar fékk ég svo heiftarlegan krampa í kálfann á vinstri fæti að ég hélt að löppin myndi detta af. Þetta var bara alveg djöfullegt, ég var einhvers staðar úti í miðju þorpi, um kílómetra frá bílnum og gat varla staðið í fótinn.
Það tók mig kortér að ganga þennan kílómetra áður en ég fékk krampa en næstum 40 mínútur að haltra styttan hring til baka, annan kílómetra. Svo mátti ég standa þarna á bílaplaninu eins og hálfviti og teygja á báðum fótum áður en ég gat sest inn í bíl og keyrt af stað. Gærkvöldið fór svo mest allt í að reyna að slétta úr þessu. Konan mín þjösnaðist aðeins á hnútunum sem voru komnir í kálfann, svo teygði ég betur og fór í sjóðheita sturtu, stútfullur af vöðvaslakandi lyfjum. Loks bar ég á mig Deep Heat sem sveið svo mikið að ég ætlaði varla að geta sofnað í gær.
Þetta virkaði samt allt saman. Ég vaknaði eins og nýr maður í morgun og ætla að ganga síðdegis, fer þó varlega af stað í þetta skiptið, þessir krampar eru ekkert grín. Líklega verð ég í hverfinu heima hjá mér, til að eiga ekki eftir að sitja kyrr í bíl í 40 mínútur eftir krampa, sem er óæskilegt.
Ég hef átt erfitt með stífleika í báðum fótleggjum eftir að ég fór að hreyfa mig eftir fótbrotið í fyrra, en þetta var alveg sérlega slæmt. Ég þarf að vera duglegri að teygja, það er ljóst.
Þar til næst.