Kæri lesandi,

bandaríska ljóðskáldið Louise Glück vann Nóbelsverðlaunin í gær. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um hver hún er fyrr en hún var tilkynnt sem sigurvegari. Nú hef ég lesið nokkur ljóð eftir hana og er ansi hrifinn, verð ég að segja.

We look at the world once, as children
The rest is memory

Ég rakst á þessa tilvitnun úr ljóði eftir hana á netinu í gær, í allri umfjölluninni, og greip hana strax. Mér finnst þetta kallast mjög vel á við pælingar mínar fyrr í vikunni um skrásetningu minninga í heimsfaraldri. Maður upplifir eitthvað einu sinni og streðar svo við að framkalla sömu upplifun. Það er ekki hægt. Þú upplifir einu sinni, svo manstu.

Í gær skall kófkvíðinn á mér af fullum þunga. Mér finnst þetta skyndilega altumlykjandi og allt að því tímaspursmál hvenær ég eða einhver nálægt mér smitast. Sú tilhugsun er ekki þægileg. Í gær las ég viðtal við einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum, Maynard James Keenan. Hann fékk veiruna í febrúar á tónleikaferðalagi og hefur verið í átta mánuði að jafna sig núna. Meðal aukaverkana sem hann upplifði eru svæsin sinaskeiðabólga og beinverkir í hálft ár. Hann sagðist enn vera með sár á lungunum, enn fá hóstaköst. Þetta viðtal gerði mig ansi stressaðan, það verður að segjast.

En! Helgin er framundan. Við ætlum að stytta okkur stundir saman, litla fjölskyldan, og ég ætla að hlúa að andlegu heilsunni, berjast gegn kvíðanum. Í gærkvöldi fór ég stóran göngutúr, það hafðist án þess að ég fengi krampa þökk sé góðri vinnu við vandamálið síðustu þrjá daga. Ég sat líka á garðbekk og horfði yfir höfuðborgarsvæðið og stundaði hugleiðslu. Við það tækifæri tók ég myndina hér að ofan, seint í gærkvöldi.

Þar til næst.