Kæri lesandi,
ég hef ekki skrifað hér inn í þrjá daga. Það var ekki planað en á sér góða ástæðu. Orðin komu nefnilega í heimsókn, bönkuðu uppá fyrirvaralaust um helgina og áður en ég vissi af var ég niðursokkinn.
Það er erfitt að útskýra hvernig þetta kom til. Aldrei mun ég geta útskýrt hvaðan orðin koma, hvers vegna þau ílengjast eða hvers vegna þau hverfa stundum fyrirvaralaust á ný. En á meðan þau dvelja get ég ekki annað en sinnt þeim, sett þau í forgang.
Ég fann flötinn sem ég hafði leitað að. Minniháttar atriði, smá breyting á sjónarhorni og allt í einu ruddust orðin öll í einu inn á mig. Tónninn er reiðari en ég átti von á, talsvert reiðari, svo reiður að mér líður eiginlega hálfilla að sitja glottandi við tölvuskjáinn í myrkrinu á meðan reiðin streymir úr mér og á skjáinn. Ég tek engar ákvarðanir hér, ég bara hlýði því sem verða vill.
Þar til næst.