Kæri lesandi,

maður er hugsi yfir ýmsu í ástandinu. Í gær las ég frábæran pistil í fréttabréfi eftir Luke O’Neil, sem ég get ekki vísað á hér af því að þetta er fréttabréf en ekki vefsíða, þar sem hann talar um að þegar faraldurinn skall á í ársbyrjun var hann í miðju flutningaferli. Hann og kona hans voru að flytja úr miðborginni hvar þau höfðu búið undanfarin ár og í nýkeypt hús í úthverfunum. Hann var spenntur fyrir flutningunum en um leið upplifði hann depurð yfir því lífi sem honum fannst hann vera að kveðja. Bóhemalífið fylgir manni yfirleitt ekki í úthverfin, sko. Nema hvað, viku seinna skall allt í lás í Bandaríkjunum og, eins og O’Neil orðaði það, voru allir staðir skyndilega orðnir úthverfin, ekkert að gera nema hanga heima hjá sér og fara í göngutúra.

Þannig hefur þetta ár liðið. Ég á úr frá Apple og get séð þrjú ár aftur í tímann, eða síðan ég keypti úrið, og ég hef þegar gengið næstum því tvöfalt meiri vegalengd í ár heldur en árin 2019 og 2018 í heild sinni. Þetta kemur til af því að maður hefur varla haft mikið annað að gera en að fara í göngutúra, endalausa göngutúra, út um allt. Ég hef gengið alla göngustíga í Hafnarfirði og nágrenni a.m.k. tvisvar, hvern einasta. Þess á milli hef ég setið heima hjá mér og spilað við dætur mínar og lesið bækur og horft á sjónvarp og knúsað konuna og farið í langar sturtur og reynt að láta uppvaskið endast sem lengst. Ég hef líka talað meira í síma í ár en undanfarið, sú þróun snerist við þegar allt skall í lás og sími og Zoom urðu skyndilega einu leiðirnar til að halda sambandi við ástvini. Það sér ekki fyrir endann á þessu ástandi en það góða er að maður er orðinn ansi góður í að vera heima hjá sér og láta tímann líða. Mér finnst þetta auðveldara núna heldur en í vor, dagarnir eru straumlínulagaðri, núningurinn og mótstaðan minni. Ég gæti gert þetta endalaust. Vonandi reynir ekki á það, þó. Mig langar til útlanda árið 2022.


Ég hámhorfði á þáttaröðina The Haunting of Bly Manor um helgina. Níu þættir á Netflix, tæplega 8 klst af frábærri sögu í boði Mike Flanagan, leikstjóra og framleiðanda. Ég er mikill aðdáandi Flanagan, hef verið síðan ég sá myndina Hush sem hann leikstýrði. Síðan hefur hann gert myndir eins og Gerald’s Game og Doctor Sleep, sem mér fannst báðar þrusugóðar, sem og fyrri Haunting-þáttaröðina, The Haunting of Hill House. Það má segja að ég og myndefni Flanagan eigum samleið, mér líkar yfirleitt allt sem hann gerir og hvernig hann gerir það.

Bly Manor er reyndar kynlegur kvistur. Hér er um að ræða draugasögu með þekktu minni, fólk býr í veglegu sveitasetri sem reynist morandi í undarlegum verum sem ógna tilveru söguhetjanna. Smám saman kynnumst við persónunum og sögum þeirra og fáum að vita hvað veldur ástandi því sem ríkir á setrinu. Þar sem Bly Manor stingur í stúf við slíkar sögur er að þetta er ekkert sérstaklega hrollvekjandi hrollvekja. Raunar er hún meira áhugaverð en spennandi. Maður byrjar að horfa af því að maður vill sjá draugasögu en um miðja þáttaröð er ljóst að Flanagan og teymi hans hafa villt um fyrir áhorfandanum og að við erum að horfa á harmleik, ástarsögu og smá ráðgátu í meðlæti. Bregðuatriðin eru fá og fátt sem heldur fyrir manni vöku, en sagan sjálf er svo frábærlega skrifuð og gerð að þessir þættir grafa um sig og búa í manni lengi að glápi loknu, einmitt eins og góður draugur.

Ég skil vel þá gagnrýni sem þættirnir hafa fengið að þetta sé ekki nógu spennandi eða hrollvekjandi. Neil Gaiman sagði eitt sinn að ef þú skrifar bók sem gerist í villta vestrinu getirðu skrifað hvað sem er, en ef þú kallar bókina þína kúrekasögu verðirðu að búast við að lesandinn hafi ákveðnar væntingar um innihaldið. Þú getur í raun ekki kallað þætti The Haunting of… og ætlast til að fólk fyrirgefi auðveldlega ef þeir eru svo ekki æsispennandi.

Að því sögðu þá trufluðu þessi „vörusvik“ Flanagan og teymis mig ekki. Ég var svo ánægður með söguna sem var sögð og fannst þættirnir svo frábærlega gerðir að það truflaði mig ekki þótt þeir færu aðra leið en búist var við. Ég mæli með þessari þáttaröð, svona eins lengi og fólk ætlar ekki að mæla þá eingöngu út frá „fear factor“.

Þar til næst.