Kæri lesandi,

þessa dagana hef ég hlustað mikið á nýjustu plötu Doves, The Universal Want, sem kom út í september, þeirra fyrsta í ellefu ár og fimmta plata alls frá árinu 2000, þegar þeir mættu á svæðið með látum. Nýja platan er frábær, virkilega vönduð og mér finnst ég geta hlustað endalaust á hana, en hún er kannski líka frábær af því að bæði tónlistin og textarnir vísa til betri tíma. Nostalgía er viðfangsefnið hér og teygir anga sína yfir í eftirsjá, ljúfar og ljúfsárar minningar, uppgjör við fortíðina og fleira í þeim dúr. Þetta er að vissu leyti falleg plata, hljómar eins og britrock circa 2000 (kannski gátu Doves aldrei annað en minnt mig á aldamótin), en hún gerir meira en að minna mig á fortíðina, hún vekur með mér kenndir sem ég sakna, eins og þegar ég gekk síðast um grýttar götur breskrar borgar fyrir tíu mánuðum síðan, eða þegar ég villtist einu sinni í London eftir tónleika í Royal Albert Hall, eða þegar ég rúntaði um götur Umbria-héraðs á Ítalíu að næturlagi í fyrrasumar. Útlönd virðast ansi fjarlæg í dag.

Hvað um það, platan er frábær og ég þakka tríóinu kærlega fyrir að hafa snúið aftur í ár. Þetta var vel tímasett hjá þeim, ég þigg allt sem minnir mig á einfaldari tíma í endalausa stofufangelsi ársins 2020.

Talandi um, þá hef ég verið að horfa á þættina Long Way Up á Apple TV+ með eldri dóttur minni. Í þáttunum ferðast tveir félagar, skoski leikarinn heimsfrægi Ewan McGregor og minna frægi enski leikarinn Charley Boorman frá syðsta odda Patagóníu upp alla Ameríku þar til þeir komast á áfangastað í Los Angeles, Kaliforníu. Þetta gera þeir með myndatökulið á hælunum, en það sem er merkilegast er að þeir ferðast á rafknúnum „mótor“hjólum. Ewan og Charley eiga það sameiginlegt að elska alls konar mótorhjól og hafa reyndar tekið upp tvær svona seríur áður, Long Way Round árið 2004, hvar þeir hjóluðu hringinn í kringum hnöttinn, og Long Way Down árið 2007, þar sem þeir byrjuðu nyrst í Skotlandi og hjóluðu alla leið niður að Góðravonarhöfða í S-Afríku. Í millitíðinni misstu þeir tengslin sem vinir þegar McGregor flutti til L.A., en hafa nú endurnýjað kynnin og fóru þessa ferð um Ameríku í fyrrahaust, og fáum við áhorfendur nú að njóta góðs af.

Þetta eru frábærir þættir, eins og fyrri tvær seríurnar. Við þekkjum McGregor vel og hann er sjálfum sér líkur hér, einstaklega viðkunnalegur náungi sem ber ekki með sér að vera heimsfrægur, nema í þau fáu skipti sem þeir eru staddir á kaffihúsum úti í rassgati og einhver þekkir hann. Boorman er ekki síður skemmtilegur karakter, hentar vel til sjónvarps og samband þeirra er heillandi. En ferðalagið og hjólin eru í aðalhlutverki hér, stórkostleg náttúran og svaðilfarir þeirra við að komast á leiðarenda skapa spennu og hættu í hverjum þætti. Í gærkvöldi lauk þætti með að hundur skaust fyrir þá félaga og allt fór á hliðina og við þurfum að horfa á næsta þátt til að sjá hvernig allt fer, en því miður var klukkan orðin of margt og dóttir mín þurfti að fara að sofa svo að ég slökkti og sendi mjög vonsvikna og tuðandi dóttur í rúmið.

Þessir þættir eru samt óhollir því að þeir ýta undir ferðaþrána, sem mér hefur tekist að halda mestmegnis í dvala á árinu. Skyndilega langar mig mikið til að kaupa mér nýtt mótorhjól (ég er með réttindi) og sjá heiminn eins og þeir Ewan og Charley. Og svo langar mig til að ganga um útlönd að kvöldlagi og hlusta á Doves.

Þar til næst.