Kæri lesandi,

helgin fór í íþróttagláp. Of mikið af íþróttum. Þetta fór illa fyrir mína menn í þetta sinn, strax í hádeginu á laugardegi, og satt best að segja fór restin af helginni í að jafna sig svolítið á bræðinni, vonbrigðunum og sjokkinu. Einn slasaður, mögulega tveir, sviptir sigurmarki á lokamínútunni, allt vitlaust. Svona eru íþróttirnar. Um leið og leik lauk hringdu útvarpsmenn í mig til að fá sjóðheit viðbrögð í beinni. Mér tókst að mestu að vera málefnalegur, held ég, en sá svo eilítið eftir því. Þessi tiltekni leikur kallaði á gífuryrði.

Þessa dagana fylgist ég úr fjarlægð með íslenskum rithöfundum reyna að fóta sig í upphafi jólabókaflóðs þar sem enginn þeirra má hitta annað fólk. Það er áhugavert, og ég dáist að mörgu því sem fólki dettur í hug til að vekja athygli á sér og sínu listaverki. Ég óska þeim öllum góðs gengis, held með þeim öllum. Þegar ég gaf út fyrir fjórum árum núna reyndist mér það erfiðasti hlutinn, að kyngja einhverju ímynduðu stolti og kynna sjálfan mig. Það gekk ágætlega, ég þurfti að gera megnið af því sjálfur en kom mér í viðtöl og útvarp og á tvær bókmenntahátíðir, fleira í þeim dúr. Ég blaðraði líka á netinu, skrifaði og birti pistla og smásögur og stofnaði Facebook-grúppu fyrir höfundinn og svona. Þetta skilaði sér ekki í mjög aukinni sölu held ég, og síðan þá hefur draumum um aðra útgáfu fylgt sú pæling hvort ég eigi að prófa að gera ekkert næst, nákvæmlega ekki neitt, láta eins og ég sé ekki til og sjá hvort sú bók selst betur eða verr. Bjóða mig fram, vera tilraunadýr. En eflaust skortir mig kjarkinn til þess; ef þú þarft að vera hugaður til að stíga fram fyrir skjöldu og vekja athygli á sjálfu þér þá þarftu held ég að vera enn hugaðri (og kannski smá kjarklaus líka) til að gera ekkert. Eyða öllum þessum tíma í skáldsögu og gera svo ekkert til að styðja hana. Slíkt gerir fólk ekki.

Fleira var það ekki í bili. Ég hef skrifað helling yfir helgina en ekkert sem átti erindi hingað. Þannig er það stundum. Kannski fer þessi síða í dvala þegar handritaskrif hefjast fyrir alvöru, sjáum til.

Góðar stundir.

Þar til næst.