Kæri lesandi,
þetta hafa verið dramatískir dagar. Við Lilja fengum haustkvef í síðustu viku en ég hristi það af mér á þremur dögum eða svo. Lilju gekk verr að hrista það af sér og á mánudagskvöldið var hún orðin raddlaus og komin með ofan í hálsinn. Þá var bara eitt að gera, panta skimun og taka enga sénsa, ef ske kynni að hún væri jákvæð. Hún fór í skimun á þriðjudag og ég var heima á meðan, fór ekki í vinnuna þann daginn. Eins og oft vill verða með ímyndunarveika menn þá fór ég um fjöll og firnindi á þriðjudag, var ýmist sannfærður um að nú værum við hjónin við dauðans dyr eða hlæjandi að vitleysunni í sjálfum mér. Niðurstöðurnar komu svo á þriðjudagskvöldið, Lilja var að sjálfsögðu neikvæð og nú erum við öll búin að jafna okkur á flensunni.
Nú er komið vetrarfrí í skólum landsins, og með því hundleiðinleg lægð. Rokið og rigningin ríkja (afsakið ofstuðlun) svo að við sjáum okkur fátt eitt í stöðunni en að flýja inn í land. Við ætlum að henda okkur í bústað, stelpurnar fara í dag og ég fer á eftir þeim í lok vinnudags á morgun. Við pössum okkur að fara eftir öllum tilmælum sóttvarnarþríeykisins, verslum matinn í Hafnarfirði og förum bara beint í bústað og svo aftur heim. Það er ekki langt að fara í bústaðinn og þetta er jú okkar bústaður, heimahús þannig að við teljum okkur sýna ábyrgð og brjóta engar reglur með þessu. Ég verð að viðurkenna að ég hlakka til að komast í heita pottinn annað kvöld.
Í gærkvöldi tókst mér að skera mig á háls við rakstur. Einn skurður, alveg láréttur og þvert yfir barkakýlið, um fimm sentímetrar á breidd. Akkúrat þar sem húðin er þynnst, svo að mig svíður endalaust í sárið þegar ég hreyfi höfuðið og teygi á hálsinum. Nú finnst mér líklegt að ég leggi rakhnífnum um sinn og safni skeggi, verði jólasveinn komandi jóla. Þetta gengur ekki svona.
Þar til næst.