Kæri lesandi,

hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað? Svo orti skáldið, Jóhann Jónsson, fyrir rúmri öld, og ég geri þau orð að mínum í dag og spyr í kjölfarið, hvernig getur árið tvö þúsund og tuttugu verið svo stútfullt af örlagaríkum viðburðum að mannveru sundlar, en um leið svo litlaust, dagar ársins og stundir dagsins svo ógreinanlegar hver frá öðrum, að mannvera drukknar næstum því í grámanum og sótthreinsaðri tilvistinni? Það er leyni-martröð ársins tvö þúsund og tuttugu, ársins þegar heimsfaraldur ógnaði gervallri heimsbyggð og kostaði milljón plús lífið, en gerði það á hátt sem rændi tilveru okkar öllum litbrigðum og ástríðu. Við sótthreinsuðum og grófum um okkur í djúpum faðmi heimilisins en á kostnað hins óvænta, hins spennandi, hins litríka.


Hvað um það. Ég er í bústað, kom hingað í gær, degi á eftir konu og dætrum. Veðrið hefur lamið á okkur, við fórum í pottinn í gær í skítakulda en létum hann eiga sig í dag, því miður. Ég hef ekki áhuga á að ná mér í aðra flensu eftir síðustu viku. Þannig að ég fer ekki einu sinni í heita pottinn þegar ég er í bústað. Takk, Covid. Þess í stað höfum við spilað, lesið, fengið okkur fegurðarblundi, horft á bíómyndir og fótboltaleiki, hlustað á barnatónlist, bakað vöfflur og eldað dýrindis mat, faðmast og hlegið og skrifað og sóðað allt út og tekið til eftir okkur. Allt sem maður gerir á milli viðburða í viðburðaríkri tilveru, nú lyft upp á hærra plan, gefið veigameira hlutverk. Að fara í sturtu er núna viðburður, að læra heima er viðburður, að horfa á sjónvarp er viðburður. Að örvænta er viðburður.

Þannig er tvö þúsund og tuttugu. Árið þar sem við máttum gera okkur að góðu allt það sem við göngum að vísu. Ég kvarta ekki, síst af öllu héðan úr bústaðnum, en þetta er samt ótrúlegt.

Þar til næst.