Kæri lesandi,

veðrið var betra í gær svo að ég fór aftur í pottinn fyrir rest. Það var mjög gott. Á endanum ákvað ég að taka ekki aukadag í bústaðnum og keyra suðurströndina í vinnu í morgun, elti stelpurnar mínar heim í gær og sá svo sem ekki eftir því. Það var fínt að koma heim eftir tvo sólarhringa, hitta kisurnar og svona. Í dag er svo ágætisveður, þótt gróður sé farinn að frjósa yfir nótt eins og myndin hér að ofan sýnir. Það eru víst einhverjar „leifar af fárviðri“ á leið til landsins svo maður býst við að komast vart út úr húsi næstu daga nema til/frá vinnu. Það er því alveg spurning um að fara í góðan göngutúr í kvöld.


Ég skulda orðið svolítið bókablogg. Ég hef lesið ýmislegt undanfarið. Hendum í smá lista:

  • The Searcher e. Tana French. Þar kom að því að uppáhaldið mitt skrifaði leiðinlega bók. Það gerist voðalega lítið í The Searcher, hún er að sjálfsögðu vel skrifuð eins og vanalega þegar French á í hlut en plottið er næfurþunnt og fyrirsjáanlegt og þetta nær aldrei neinu flugi. Ojæja. Eftir sjö magnaðar bækur var kominn tími á eina slappa, býst ég við. Vonandi nær hún sér á strik næst.
  • Þerapistinn e. Helene Flood. Ég kláraði þessa loksins, las með hléum í sumar eftir að hafa verið spenntur fyrir útgáfu hennar. Hún er … fín. Góð, jafnvel. Ekkert til að hrópa yfir eða eyða heilli færslu í. Góð fyrsta bók, en klárlega ofhæpuð.
  • Unsub e. Meg Gardiner. Fyrsta bók í bókaflokki sem mikið er látið af vestan hafs. Mér fannst þetta mjög gott, svolítið mikið málað eftir númerum en þegar hún nær flugi flýgur hún hátt.
  • Jade City e. Fonda Lee. Ein besta bók sem ég hef lesið í ár, eins konar fantasíu-útgáfa af Guðföðurnum sem byggir á Hong Kong um miðja síðustu öld og fjallar um glæpaklíkur sem stjórna sérstöku grýti, jade, sem unnið er úr fjöllum eyjunnar Kekon, og gefur fólki allt að því ofurkrafta. Mögnuð bók og ég er að lesa þá næstu í þríleiknum, Jade War og hún virðist ekki vera neitt síðri. Þriðja og síðasta bókin, Jade Legacy, kemur út á næsta ári og ég hlakka til. Ég mun klárlega skrifa meira um þessar bækur þegar ég hef lokið við Jade War.
  • Night. Sleep. Death. The stars. e. Joyce Carol Oates. Ég er að hlusta á þessa með hléum. Oates er í fantaformi hér og grefur um sig í fjölskylduharmleik og lífi þeirra sem lifa af. Vel skrifuð bók, þótt hún sé klárlega of löng þá letur það mig ekki til lestursins.
  • Real Life e. Brandon Taylor. Ein af fimm bókum tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár. Taylor er ungur, svartur og samkynhneigður og skrifar um líf ungs, svarts og samkynhneigðs nemanda í háskóla í Bandaríkjunum. Þetta er fínasta bók, á góða spretti en kannski ekki alveg það góð að ég spái henni Bookernum í ár.
  • Intimations e. Zadie Smith. Stutt bók með nokkrum ritgerðum sem Smith skrifaði um komu faraldursins og innilokun samfélags mannanna í vor. Fínasta afþreying í 2-3 klst en nú, tveimur mánuðum seinna, man ég varla nokkuð sem ég las í henni.
  • Chaos e. Tom O’Neill og Dan Piepenbring. Þessi langa bók rekur sögu Charles Manson og veltir upp ýmsum samsæriskenningum um morðin við El Cielo Drive í Los Angeles á sjöunda áratugnum, sem Manson og „fjölskylda“ hans var á endanum sakfelld fyrir. Áhrifamikil og áhugaverð frásögn sem opnaði ýmsar nýjar hliðar á málinu sem ég þekkti ekki, en ég verð þó að játa að O’Neill tókst ekki að sannfæra mig um samsæriskenningarnar á endanum.
  • Decoding the World: A roadmap for the questioner e. Po Bronson og Arvind Gupta. Ég er að lesa þessa núna. Bronson og Gupta reka sprotafyrirtæki í Silicon Valley vestan hafs og eru mjög áhugaverðir kappar. Hér skiptast þeir á að skrifa um ýmisleg málefni er varða samtímann og þeirra sýn á öldina sem er fram undan. Ég er búinn með svona þriðjung og hún er rosalega góð „so far“.
  • Tími töframanna e. Wolfram Eilenberger. Ég er líka að lesa þessa núna, kominn frekar stutt í henni reyndar, um fjórðung. Eilenberger segir skemmtilega frá þriðja áratug síðustu aldar, hvar fjórir af helstu heimspekingum aldarinnar ruddu sér rúms og ollu straumhvörfum í heimspeki. Eilenberger segir skemmtilega frá og sögusviðið er ljóslifandi.
  • The North Water e. Ian McGuire. Frábær skáldsaga sem var tilnefnd til Booker-verðlauna fyrir fjórum árum. Ég keypti hana í sumar og las eftir að hafa séð meðmæli á strangli á netinu og sá ekki eftir því. Hún líður hins vegar aðeins fyrir augljósan samanburð, því bæði sögusviðið og fléttan minna mig mjög mikið á hina mögnuðu The Terror eftir Dan Simmons, og ég verð að segja að bók Simmons tekur þessari fram að nær öllu leyti nema því að The North Water er styttri og auðmeltari, fyrir þá sem það kjósa. Ég get mælt með henni, þótt hún eigi sér stóra bróður í kanónunni.
  • Axiom’s End e. Lindsay Ellis. Ellis er einn frægasti Jútjúber í heimi að ég held, ég hef jafnan gaman af poppkúltúresseyjum hennar þar og gaf bókinni hennar því séns. Þetta er … frekar undarleg bók, eiginlega. Óhefðbundin. Ég vissi á köflum ekki hvort ég var að lesa vísindaskáldskap, „chick lit“ (ömurlegt hugtak, en þú veist hvað ég meina), spennusögu eða bildungsróman. Hún minnti mig líka óþægilega mikið á kvikmyndina The Shape of Water á köflum. Kannski ekki frumlegasta sagan en áhugaverð. Það er von á framhaldi, ég ákveð hvort ég gef henni séns þegar að því kemur.
  • Solaris e. Stanislaw Lem. Klassík sem ég hefði átt að vera löngu búinn að lesa. Hún er stutt, bara 160 bls., en það leynist margt í þessum blaðsíðum. Situr í manni löngu eftir lestur. Classic for a reason, eins og sagt er.
  • Faceless Killers og The Dogs of Riga e. Henning Mankell. Ég fann notað eintak af Faceless Killers á spottprís í bókabúð í sumar og las hana yfir helgi, og svo í kjölfarið hundana í Riga. Ég skil hvers vegna Wallander-bækur Mankell urðu svona frægar. Það er mikill sjarmi í þessum bókum og þótt gallaða, drykkfellda, fráskilda löggan sé orðin að mikilli klisju nútildags var hún það ekki þegar Mankell skrifaði þessar bækur. Classic for a reason, eins og sagt er.
  • The 47th Samurai, Night of Thunder og I, Sniper e. Stephen Hunter. Ég varð að hvíla mig á Hunter eftir I, Sniper. Nú er ég hálfnaður með bókaflokk hans um Bob Lee Swagger (7 bækur af 14 lesnar) og þær eru allar ógeðslega góðar. Hins vegar var I, Sniper fyrsta bókin hans þar sem mér fannst örla á pólitík sem vildi troða sér inn í söguþráðinn. Sú bók er frábær en hún endar eiginlega á því að vera hálfgerð upphefð fyrir þá sem styðja byssulöggjöf Bandaríkjanna í núverandi mynd. Ég get alveg lesið eitthvað sem ég er ósammála, tel einmitt mikilvægt hverri manneskju að fá ólík sjónarhorn á tilveruna, en þetta fór eitthvað aðeins öfugt ofan í mig. Ég held þó pottþétt áfram á næstu mánuðum, þetta er svo geggjuð sería.
  • A Song of Isolation e. Michael J. Malone. Glæný bók eftir skoskan höfund sem ég hef hitt í tvígang á glæpahátíðum hérlendis. Malone er skemmtilegur karl og það er vel látið af bókum hans en ég varð fyrir eilitlum vonbrigðum með þessa. Það er margt ansi gott í henni en á endanum var söguþráðurinn endaslepptur og mér fannst hann á köflum hreinlega hlaupa yfir hluti sem þurftu að fá meiri athygli. Þetta var of grunnt og straumlínulagað fyrir minn smekk, enda vanur að grafa um mig í 4-600 bls. doðröntum um glæpi, í stað þess að fleyta kerlingar yfir stóru málin á 200 blaðsíðum.

Þannig hafa síðustu þrír mánuðir eða svo í lestri gengið. Nær allt þetta las ég á ensku, er eins og venjulega að hreinsa enskubækurnar af náttborðinu áður en jólabókaflóðið skellur á. Ég er þegar búinn að eyrnamerkja 3-4 íslenskar skáldsögur sem mig langar að lesa, auk þess sem ég fæ bráðum pakka með átján íslenskum spennusögum til að lesa í vetur fyrir lokaár mitt í dómnefnd Blóðdropans.

Þetta hefur verið fínasta lesár hingað til. Vonandi heldur það áfram.

Þar til næst.