Kæri lesandi,

ég skrifaði síðast á mánudaginn, þá staddur á skrifstofunni eftir gefandi helgi í bústað. Ég kvartaði aðeins yfir að hafa lítið komist í pottinn í bústað, bara tvisvar á þremur dögum, og að veðrið var það slæmt að það lamdi á manni og hraðkældi á leið í og úr pottinum. Sú sniðuga ákvörðun að fara í pottinn við slíkar aðstæður reyndist hafa afleiðingar.

Ég er búinn að steinliggja með inflúensu í tæpa viku síðan. Á þriðjudag fór ég í skimun og útilokaði kófið, en þess utan var ég bara láréttur fram á föstudag. Þá skreið ég loks í vinnu, tók mér stuttan vinnudag og kom svo við á bílaumboði á leið heim að sækja nýjan vinnubíl, enda sá gamli síðan 2012 og kominn tími á uppfærslu. Silfurkúlan hafði reynst mér vel síðustu árin svo að ákvörðunin var tekin að uppfæra bara í nýja silfurkúlu. Tvinnbíll með snertiskjá og blátönn og öllu því helsta situr nú fyrir utan hurðina hér heima … og ég hef varla getað keyrt hann. Fór bara beint heim á föstudag og hef haldið mig innandyra síðan. Þetta er allt í áttina, nú á sunnudegi er farið að örla á gamla góða aftur, en mér þykir ég vera heldur lengi að ná vopnum mínum að þessu sinni.

Ég reyni að hugsa ekki um hvernig kófið færi með mig, fyrst inflúensan tók mig svona djúpt.


Samfélag okkar vegur nú salt á viðkvæmum punkti í faraldrinum. Fyrir helgi voru hertar aðgerðir kynntar, enda hafa takmarkanir síðustu fjögurra vikna ekkert hægt á útbreiðslu veirunnar og hópsmitum fjölgar ef eitthvað er. Þannig að aðgerðir voru hertar, og ljóst að við munum ekkert geta gert sem samfélag fyrr en í fyrsta lagi um miðjan desember, úr þessu. Hins vegar er komin talsverð þreyta í fólk, maður sér að það eru ekki allir til í að slaufa sínu líferni eða sínum áhugamálum fyrir lýðheilsuna. Nú síðast var Íslandsmótinu í knattspyrnu hætt og þá hringdu nokkur félög, sem lenda sérstaklega illa í að fá ekki tækifæri til að „bjarga sér“ í síðustu leikjunum, þráðbeint í lögfræðinga sína. Í dag er svo helst í fréttum að sóttvarnarlæknir er að biðja veiðimenn um að ferðast ekki á milli landshluta við iðju sína en þeir mótmæla af því að … ég veit ekki, golfararnir og hestafólkið fékk sitt hobbý í sumar og þeir vilja alls ekki missa af þeim möguleika að skjóta nokkur saklaus dýr sér til skemmtunar. Ég skil lítið í svona málaflutningi. Þetta eru vissulega fordæmalausir tímar, drullisti bara til að vera heima hjá ykkur einn vetur. So fucking what þótt KR komist ekki í Evrópukeppnina í ár, so fucking what að þið fáið ekki að veiða rjúpu fyrir jólin, so fucking what að þið komist ekki í húsið ykkar á Spáni þennan veturinn. Heilbrigðisstarfsfólk hefur ekki átt sér neitt líf í átta mánuði núna, það hefur fórnað sér algjörlega í einangrun og endalausa sóttkví milli vinnuvakta, sleppt sumarfríum og varla séð aðra en sína nánustu, til að vera til staðar fyrir þau okkar sem hósta framan í hvort annað á barnum eða gleyma að spritta sig í ræktinni. Getum við aðeins?


Ég sat í þögninni í morgun og las Þögnina eftir Don DeLillo, nýja nóvellu sem gamli meistarinn var að gefa út. Hún er ekki nema 120 bls., fljótlesin og auðmelt. Því miður fannst mér lítið til koma, þessi bók er unnin út frá mjög áhugaverðri hugmynd en inniheldur svo bara að mestu samtöl nokkurra persóna og ekkert sem leiðir neitt. Það er af sem áður var hjá hinum aldna meistara.

Nú ætla ég hins vegar að hætta að sitja hér inni á skrifstofu í þögninni og vélrita, af því að ég er enn lasinn og ég anda svo hátt, og heyri svo vel í brengluðum hljóðum hálspípunnar, að það pirrar mig, kemur mér úr jafnvægi.

Þar til næst.