Kæri lesandi,

í dag er þriðji nóvember árið 2020. Einnig þekktur sem kosningadagur vestan hafs. Kaninn hefur frekar skýrt val í ár; fjögur ár í viðbót af gulrót með gjallarhorn og enga sál eða eðlilega manneskju sem hægt er að vinna með og gagnrýna og vera eðlilega óánægð með og svona.

Ég spái gulrótinni sigri. Ef hún hefur þetta ekki á heiðarlegan máta, sem gæti gerst þótt spár sýni annað í aðdragandanum, þá mun hún svindla og stela þessu, enda ekki með sál.

Þetta er ákveðin ögurstund. Sameinuð bandaríki Norður-Ameríku hafa verið á niðurleið mjög lengi og eru svolítið að súpa seyðið af því núna. Gulrótin er eins og endakallinn í Mario Bros; þegar þú ert búinn að rugla nógu mikið í kjördæmum þér í hag, grafa undan trausti almennings á þrískiptingu valds og fjórða valdinu, fjölmiðlum, gera minnihlutahópum nógu erfitt fyrir að kjósa og viðhafa árum saman orðræðu sem gerir fólk aktíft heimskara, þá skaparðu kjöraðstæður fyrir sálarlausa gulrót með gjallarhorn sem mætir á svæðið og tekur völdin. Og vandinn með sálarlausar gulrætur er að þær skila jafnan ekki völdum ótilneyddar. Dagurinn í dag er eiginlega síðasti séns fyrir almenning að neyða gulrótina frá völdum. Eftir það gæti þurft herinn til eða blóðuga byltingu, og ég hef trú á hvorugu.

Þannig að, verður gulrótin með gjallarhornið síðasti forseti sameinaðra bandaríkja Norður-Ameríku? Eða vöknum við öll upp á morgun við veröld nýja og betri … það er að segja meingallaðan forseta sem fáum líkar en ógnar allavega ekki nánustu framtíð lýðræðis í stórveldinu? Spennandi.


Ef ég hugsa til baka síðustu fjögur árin þá er með ólíkindum hversu mikill hávaði hefur komið frá gjallarhorninu. Ég hef ekki kynnst öðru eins á minni ævi og síðustu fjórum árum, beggja megin hafsins. Stórveldin á okkar hægri og vinstri hönd hafa verið með læti. Brexit og Trump. Auðvitað skipta málefnin máli og það er hryllilegt að sjá fólk þjást vegna ákvarðana eiginhagsmunaseggja sem hafa logið og svikið sig til valda. En ef ég leyfi mér mína eigin hagsmuni hérna, þá langar mig aðallega til að gjallarhornið þagni. Ef Biden vinnur á ég þá von heitasta að fá frið fyrir bandarískum stjórnmálum næstu fjögur árin. Fínt að heyra fréttir þaðan svona vikulega, helst ekki meira. En með Trump hefur hávaðinn verið án afláts.

Þetta verður ekki auðvelt. Ég hef rýnt (of mikið) í stöðuna vestan hafs síðustu vikur og talið niður til kosninga og ég er eiginlega sannfærður um að dagurinn í dag verður sögulegur fyrir fleira en bara kosningar. Ég býst við ofbeldi og jafnvel skotárásum á kjörstöðum, alls konar ringulreið og óöld, ég býst líka við að Trump lýsi yfir sigri ef hann er yfir í kvöld, þótt telja eigi eftir um 100 milljón atkvæði sem hafa verið greidd utan kjörfundar eða með pósti, og ég býst við alls konar lagaflækjum og deilum í lykilsýslum lykilríkja næstu dagana. Ég býst ekki við að vita hver er næsti forseti Bandaríkjanna í fyrramálið. Þetta mun taka tíma, og þetta verður ekki fallegt. Vonandi verður það þess virði.

Þar til næst.