Kæri lesandi,
þetta verður fyrsta færslan mín í fjórar vikur. Ég tók mér frí sem entist út nóvember, sem er þá í annað sinn á þessu ári sem ég leyfi mér að gleyma þessari vefsíðu í tæpan mánuð. Mér finnst mikilvægt að virða eigin upplifun á þessum vefskrifum; þegar mig langar ekki lengur að skrifa, hætti ég, og þegar mig langar aftur að skrifa geri ég það.
Mig langar aftur að skrifa.
Nóvember hefur reynst jafn viðburðaríkur og allir hinir mánuðir þessa ómögulega árs. Joe Biden er réttkjörinn 46. forseti Bandaríkjanna, það fór eins og það fór, en Trump neitar að viðurkenna ósigur og hefur fundið leið til að hagnast á því að grafa undan trausti almennings á lýðræðinu. Það var honum líkt.
Diego Armando Maradona er allur. Það að hann skyldi deyja kom ekki á óvart, bæði í ljósi lífshlaups hans og veikinda nú í haust, en það var samt ákveðinn skellur. Stærri nöfn eru vandfundin í íþróttum almennt, en fyrir knattspyrnuunnendur var hann eitthvað enn stærra og meira en bara einn sá allra besti sem hefur rakið knött yfir grasblett. Í stuttu máli má segja að við höfum farið með hann eins og látinn dýrðling frá því að hann hætti að spila, hyllt hann og lofsamað, gert allt það sem við geymum venjulega þar til fólk deyr. Og nú er hann sannarlega dáinn, og lofsöngurinn getur haldið áfram þar sem frá var horfið.
Það verður að segjast að ár sem hófst á dauða Neil Peart og Kobe Bryant og lýkur með dauða Maradona var aldrei að fara að vera neitt annað en sögulega slæmt. Og samt blikna þessir harmdauðar í samanburði við …
Veiran skæða sækir enn hart fram völlinn. Faraldursþreytan hefur breyst í faraldurspirring nú þegar það er að verða útilokað að við getum átt venjuleg jól, ráðamenn eru komnir í hár saman í fjölmiðlum og sitt sýnist hverjum. „Getur þessi veira ekki allavega gefið okkur jólin?“ spyr venjulegt fólk. Sjálfur sé ég mikið tækifæri í því að jólunum sé aflýst. Ég mun nota tækifærið og vera í náttbuxunum fjóra daga samfleytt og lesa bók á dag alla fjóra dagana, í fyrsta sinn síðan á unglingsárum. Ég væri samt alveg til í að fara að komast aftur í ræktina eða sundlaugar. Lykilatriði er samt að halda áfram skynsemisför, forðast smit með öllum ráðum. Bóluefnin eru í samþykktarferli og framleiðslu, það sér fyrir endann á þessu þótt það taki jafnvel hátt í ár í viðbót. Ég get verið skynsamur, á mjög auðvelt með að vera heima hjá mér.
Jólabókaflóðið er skollið á og lestur er hafinn. Fyrst las ég Bróðir eftir Halldór Armand og Eldarnir eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, þær eru báðar frábærar. Næst langar mig mikið til að lesa Truflunin eftir Steinar Braga, þar held ég að sé mögulega besta bók ársins á ferð. Þá er ég byrjaður að lesa spennusögurnar átján sem komu út á þessu ári fyrir glæpaverðlaunin árlegu. Þetta er síðasta ár mitt í dómnefnd og ég er formaður dómnefndar. Við fengum bækurnar í hendur á síðustu vikum og ég byrjaði fyrir viku, er búinn með fjórar bækur nú þegar. Ég tel mig ekki enn hafa lesið verðlaunabókina og vonast eftir að restin af framlögum séu betri en það sem ég hef þegar lesið. Er raunar alveg viss um það, margar af þessum bókum í ár líta mjög vel út og þótt ég virðist hafa byrjað á röngum enda les ég áfram ótrauður.
Síðustu tíu daga hef ég dundað mér við að taka saman playlista fyrir árið 2020. Ég setti mér tvær reglur; bara lög sem komu út seint 2019 eða á árinu 2020, og aðeins eitt lag per flytjanda. Ég náði á endanum í tæplega hundrað laga lista sem er fjölbreyttur og frábær, þótt ég segi sjálfur frá. Ég deili honum mögulega hér inn þegar ég geri tónlistarárið upp. Það var eitt af áramótaheitum mínum að vera duglegri að hlusta á nýja (og eldri) tónlist á árinu, í stað þess að flakka alltaf á milli sömu flytjendanna og platnanna. Það hefur heldur betur gengið eftir og ég hef kynnst mörgu nýju á árinu, svo að nú er ég farinn að hlakka til að gera það upp í desember.
Þar til næst.