Kæri lesandi,
í gær varð ég vitni að fallegri sjón. Ég var fjórði fremstur í bílaröð sem varð að staðnæmast á hraðbrautinni á leið frá Garðabæ til Hafnarfjarðar, nálægt Kauptúni (IKEA og Costco). Eina stundina var ég á níutíu á leiðinni heim til mín, þá næstu var ég stopp á miðri götunni og bílaröðin lengdist fyrir aftan mig og í báðar áttir. Allir bílar stopp … á meðan gæsahópur gekk í mestu makindum yfir hraðbrautina í áttina að Setbergi. Þetta tók um þrjátíu sekúndur og það var ekkert annað að gera en brosa og njóta þessarar fallegu sýnar í sólskininu.
Sólin hækkar á lofti, bílar víkja fyrir gæsum á hraðbrautinni og IKEA fyllist á ný af fólki með tilslökunum, nú þegar okkur hefur loksins tekist að sigra þennan langa vetur og núlla faraldurinn á Íslandi. Fallegt.
Í bili. Er á meðan er og allt það. Við erum á góðum stað hér á landi, eina græna landið í Covid-kortum Evrópu, getum frjálst um höfuð strokið og leyft okkur að fara í ræktina, sund, út að borða og jafnvel á barinn, leikhús og bíó, en einhverra hluta vegna megum við enn ekki horfa á kappleiki í stúkunni. Það kemur þó. Tilfinningin er samt svolítið eins og allir haldi niðri í sér andanum og krossleggi fingur. Þetta er rosalega góð staða, loksins, og bjartsýnin mikil nú þegar bólusetningar eru komnar á fullt. En Íslendingar muna vel hversu auðveldlega nýtt smit slapp út í samfélagið í ágúst síðastliðnum – það þurfti bara nokkra óábyrga ferðamenn til – og það ábyrgðarleysi skilaði því að við vorum heima hjá okkur og máttum ekkert í fjóra mánuði. Nú er febrúar og við hugsum það vart til enda ef slíkt skyldi gerast aftur og hafa af okkur vorið og jafnvel sumarið sem er framundan. Ég sem er meira að segja farinn að skipuleggja ferðir í sumar, leigja hús og svona!
Vonum það besta. Faraldurinn hefur geisað í ár núna og þetta hafa verið ótrúlegir tímar, en þessu má alveg fara að ljúka. Vonandi fáum við öll bólusetningu á þessu ári, sem fyrst. Og vonandi ná löndin í kringum okkur, þessi eldrauðu á kortinu þar sem allt er enn í veldisvexti, að girða sig í brók svo að við getum endurnýjað kynnin við Leifsstöð.
Í gær fór ég og spjallaði um fótbolta í útvarpinu í klukkustund. Það var gaman. Eitt af því sem ég gerði var að velja vonbrigðalið síðustu tveggja mánaða í ensku Úrvalsdeildinni. Í það lið setti ég einn leikmann úr „mínu“ liði, Liverpool, hinn spænska Thiago Alcántara sem er mikill töframaður en hefur ekki alveg náð að sýna það með nýja liðinu sínu. Við það tækifæri komst ég svo að orði að það að horfa á Thiago spila fótbolta þessa dagana væri eins og að horfa á mann glíma við tré. Ég er ansi ánægður með þá lýsingu. Skáldið fann orðin sín í beinni útsendingu og er það vel. Ég mun nota þessa samlíkingu aftur við valin tækifæri.
Ég veit, kæri lesandi. Ég veit að ég hef ekki skrifað á síðuna í rúma tvo mánuði. Það á sér mjög ákveðna ástæðu. Ég hef verið að skrifa. Hér er eitthvað að fæðast. Ég leyfði skrifunum að njóta forgangs á viðkvæmasta stiginu en nú er ég á góðum stað, held áfram að skrifa nær daglega og vonast til að klára seint í mars eða snemma í apríl. Þá verð ég kominn með eitthvað glænýtt í hendurnar. Handrit er það víst kallað, og næsta skref þar á eftir verður að gera það betra. Ég er sem sagt að skrifa skáldsögu, hjálpi mér hamingjan. Sjáum hvernig það endar.
Þar til næst.