Kæri lesandi,

um helgina pantaði ég mér viðhafnarútgáfu bókarinnar Slaughterhouse-Five eftir Kurt Vonnegut. Bókin sú er á mjög þröngum lista yfir allt að því fullkomnar skáldsögur að mínu mati, ég las hana fyrst sem unglingur og aftur fyrir svona áratug en nú kallar hún til mín að nýju, prósi Vonnegut og frásagnargáfa eins og söngvar sírenunnar í huga mér. Ég ætla að lesa bókina í þriðja sinn þegar ég fæ þetta fallega eintak í hús á næstu dögum. Ég hlakka til.

Gærdagurinn einkenndist af tveimur íþróttaviðburðum. Mínir menn í Liverpool steinlágu á heimavelli gegn meistaraefnum Manchester City, 1-4. Þar með er ljóst að Liverpool ver ekki titil sinn í ár og City-menn stefna hraðbyri á þriðja deildarsigur sinn á síðustu fjórum árum, sem gerir okkur Liverpool-mönnum á ný ansi erfitt að reyna að halda því fram að hetjurnar okkar séu besta lið Englands síðustu ár. Þetta eru vonbrigði en einnig hálfundarleg staða. Venjulega þegar lið kastar frá sér heilu tímabili á fjörutíu dögum eins og Liverpool hafa gert fylgja því eftirmálar. Fólk efast um leikmenn, þjálfara, prójektið í heild sinni jafnvel. Því er ekki að sæta að þessu sinni, þvert á móti hafa flestir Púllarar enn fulla trú á liðinu og umgjörðinni. Málið er bara að þetta er tímabilið frá helvíti, það hvíla álög á liðinu sem hefur orðið fyrir röð óheppilegra atburða sem hafa sameinast um að fella ríkjandi meistara. En um leið og svekkelsið er mikið hlakka ég óstjórnlega til að fá liðið okkar aftur saman á völlinn, allir heilir og ákveðnir í að minna rækilega á sig eftir þrautagönguna í vetur. Og í haust býst ég við að Englendingar hleypi áhorfendum aftur á vellina, sem verður Liverpool til meiri framdráttar en flestum liðum enda Anfield ótrúlegur leikvangur þegar hann prýða raddir þúsunda. Ég hlakka til að sjá comebackið á næstu leiktíð.

Seinni viðburðurinn var svo hin árlega Ofurskál Bandaríkjanna, SuperBowl, úrslitaleikurinn í NFL deildinni í ruðningi. Meistarar síðasta árs, Kansas City Chiefs, freistuðu þess að verja titilinn gegn Tampa Bay Buccaneers sem státa nú besta leikstjórnanda allra tíma, Tom Brady, og þá var þetta lið sem hefur ekkert getað í átján ár allt í einu komið alla leið í úrslit. Það munar um Tom Brady, og skemmst frá því að segja að hann og sjóræningjarnir frá Tampa rústuðu Chiefs og unnu titilinn í ár. Þetta er í sjöunda sinn sem Brady vinnur Ofurskálina, hann hefur unnið hana langoftast allra leikmanna en nú hefur hann meira að segja unnið hana oftar en sigursælustu lið sögunnar. Þetta afrek er svo galið að fólk hefur eytt öllum deginum í dag að reyna að ná utan um það.

Nema hvað, Brady er nú óumdeildur besti ruðningskappi allra tíma í Bandaríkjunum og einn af örfáum bestu íþróttamönnum allra tíma á heimsvísu. Hann er geitin, eins og það er kallað (the g.o.a.t. – greatest of all time). Ég hef reyndar tekið eftir því í dag hversu mikill hluti af íslenskri tungu þetta hugtak er orðið. Ef einhver er geitin þá vita allir um hvað er verið að tala. Það er ekkert langt síðan þetta hugtak komst fyrst í hámæli í enskumælandi löndum en nú er það að fullu gengið inn í íslenska tungu, og eflaust víðar. Tom Brady er geitin. Það vita allir hvað það þýðir. Ég ætla að flokka þetta nýyrði undir „falleg orð“ og halda því til haga hér á síðunni. Mér finnst geitum gert fallega hátt undir höfði með þessum hugrenningartengslum við framúrskarandi ágæti afreksfólks.

Kvöldinu lauk þó ekki nógu vel hjá mér. Líkaminn neitaði að samþykkja krydduðu kjúklingavængina og chilíið sem ég innbyrti um miðnætti í gærkvöldi yfir sjónrænu veislunni. Ég var í partýi heima hjá Eyvindi félaga mínum, við höfðum séð um veitingar og önnur aðföng og sex manns skemmtu sér vel. Svo skreið ég sáttur heim klukkan hálffjögur í nótt, ánægður með frábæra kvöldstund, en tveimur tímum seinna vaknaði ég í svitabaði og seljaði upp. Það tók mig alveg fram undir hádegið að komast á réttan kjöl aftur, sem kostaði mig vinnudag og þessi mánudagur hefur farið fyrir ofan garð og neðan. Ég er nývaknaður eftir síðdegisblund sem ég vona að hafi hrist af mér síðasta slenið. Þá sjaldan að maður lendir í því að borða eitthvað framandi og líkaminn skilar því þá er venjan að sverja sárt við legg að slíkur matur komi aldrei innfyrir varir manns á ný. Ef ég ætlaði að framfylgja því þá væri ég hér með hættur að borða kjúkling og hakk. Ég sé það ekki alveg endast, þótt vissulega langi mig ekki til að sjá slíkan mat í að minnsta kosti nokkra daga. Ég held mig við ristað brauð og eplabita í dag og mjaka mér svo yfir í eitthvað betra á morgun. Sé til hvenær ég hef næst lyst á kjúkling, sem er allajafna stærsti fæðuflokkurinn á mínu matarborði.

Þar til næst.