Kæri lesandi,
myndin hér að ofan er tekin í hádeginu í dag, um sólarhring eftir að ég tók myndina með færslu gærdagsins. Vorveðrið hefur vikið fyrir snjókomu, í örfáa daga hið minnsta. Ég hefði átt að hrósa meira happi í gær.
Annars hef ég verið í einhverju lestrarfönki síðustu þrjár vikur. Eftir að ég kláraði að lesa íslensku glæpasögur ársins hef ég varla komist af stað í nokkurri bók, þrátt fyrir að hafa reynt tvær eða þrjár atrennur inn í skáldsögu. Það er eins og hausinn á mér geti ekki tekið við fleiri sögupersónum í bili, ekki síst þegar ég er á kafi í mínum eigin fimmtán persónum eða svo í handriti. Ég horfi passíft á sjónvarpsefni, aðallega enduráhorf á Dexter-þáttaröðina og enska boltann, og ég les stöku smásögu eða kafla á strjáli í ýmsum nonfiction-bókum. Ekkert sem kallar á of mikla skuldbindingu, of stórt persónugallerý eða of mikinn tíma. Inn og út, staldra ekki við.
Dómnefndarstörfum lauk formlega í gær þegar ég, sem formaður dómnefndar á þessu lokaári mínu, sendi val okkar til umsjónarmanna verðlaunanna. Glæpasaga ársins 2021 hefur verið valin og nú á aðeins eftir að kunngjöra valið. Ég segi auðvitað ekkert um sigurvegarann hér, það má ekki. Og þar með hef ég verið í dómnefnd þrjú ár í röð og segi skilið við. Þetta var mjög skemmtilegt, fróðlegt og gefandi að mörgu leyti en líka stundum erfitt, enda ekki allar bækur þess eðlis að mann langaði til að halda áfram að lesa. Mér líður samt svolítið eins og ég hafi borðað pítsu á hverjum degi í heilt ár. Pítsa er góð, en þegar ég má hætta að borða hana er ég alls ekki að fara að panta pítsu næstu misserin. Það verður eflaust einhver bið á að ég lesi íslenska glæpasögu aftur, og ljái mér hver sem vill. Ég er búinn að lesa sextíu slíkar á síðustu 28 mánuðum.
Ég hef síðustu daga einnig setið við einhverja vefsíðu sem mér var bent á þar sem hægt er að setja saman uppáhaldslista fyrir tónlist og kvikmyndir. Ég bjó til lista yfir hundrað uppáhalds plöturnar mínar og fimmtíu bestu kvikmyndir sem ég hef séð um ævina. Lá aðeins of mikið yfir þessu, og svo hefur maður deilt listum með vinum og ættingjum og skeggrætt. Þegar ég horfi á mína lista, sem ég ætla ekki að deila hér þar sem ég get ómögulega hætt að hrókera til og frá í þeim og vil síður birta eitthvað sem sögulega heimild um smekk minn þegar ég get ekki ákveðið mig, þá stingur í stúf finnst mér hversu yfirgnæfandi mikið af tónlist og kvikmyndum sem ég hef í hávegum kemur frá mínum eigin tíma. Ég er ekki mikið fyrir klassíkina, það sem kom út áður en ég fæddist eða byrjaði almennt að hlusta og horfa.
Ég held að þetta sé af því að upplifunin er mér mikilvæg. Ég er mjög hrifnæmur einstaklingur og mikið af vali mínu byggist á hvaða áhrif verkið hafði á mig, og þar spilar samfélagið stórt hlutverk. Þegar ég var yngri var svo dásamlegt að uppgötva plötu með vinum, þá spiluðum við hana í gríð og erg í hvert sinn sem við hittumst og ræddum verkin fram og til baka. Sama með kvikmyndir, oft fór hópur í bíó, eða bara ég með Fiffa sem hefur horft á fleiri myndir með mér en nokkur önnur manneskja, eða ég og eiginkonan, og þá kom fyrir að við sáum svo áhrifaríka kvikmynd að maður varð að setjast einhvers staðar eftir á og ræða verkið. Þetta finnst mér ómissandi hluti af upplifuninni.
Þetta var samt bara tímabil. Það kom og fór. Ég veit ekki hvort það er netinu að kenna eða öldrun minni en það gerist æ sjaldnar að ég upplifi nýjar kvikmyndir eða tónlist, sérstaklega tónlist, með öðru fólki. Nú er þetta oft bara ég, einn heima hjá mér að kvöldlagi með frábæra nýja tónlist í eyrunum, að ræða þetta við sjálfan mig og ímynda mér hvað það væri gaman ef ég væri að hlusta á þetta með hópi vina eins og forðum daga. Þá verður tengingin við tónlistina bæði önnur og, því miður, ekki jafn djúp.
Þannig að flestar uppáhalds plötur og kvikmyndir mínar eru frá árunum 1990-2005. So it goes.
Þar til næst.