Kæri lesandi,
gleymdi að skrifa í gær. Það er allt í lagi, ég hafði ekkert merkilegt að segja. Slíkt kemur fyrir besta fólk, og mig líka.
Enn ein vikan er á enda runnin, sú sjötta á þessu ári. Það þýðir að rúmlega tíu prósent ársins eru liðin. Þetta gengur furðu fljótt, vissulega gerðist margt í janúar svo að manni fannst hann ansi fljótur en febrúar hefur þotið hjá.
Ég kláraði að hlusta á Útlendinginn eftir Albert Camus í morgun á Reykjanesbrautinni. Eða, The Stranger á enskunni sem ég hlustaði á, L’Étranger á frummálinu. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég kláraði bókina er að Útlendingurinn er hööörmuleg þýðing á titli bókarinnar. Náunginn væri nærri lagi, eða eitthvað meira í þá áttina. Hvað sem því líður þá var það næsta sem ég hugsaði að þetta væri klassísk bók af mjög augljósum ástæðum. Það er, gæðin eru slík að hún er allt að því óumdeild. Frábær bók. Ég ætla að hlusta á Plágu Camus fljótlega, og þá get ég sagst hafa lesið Camus þótt ég hafi aldrei opnað bók með orðum hans.
Ég datt í eitthvað fönk í vikunni og átti erfitt með að vakna til að skrifa. Svo í gær tók ég saman tölfræðina og sá allt í einu að ég hafði ekki skrifað staf í átta daga, og ég gat svoleiðis svarið að það höfðu ekki verið svona margir dagar. Ég hélt ég væri búinn að slá slöku við í svona fjóra daga tops. En nei, rúm vika. Þannig að ég smánaði sjálfan mig, stillti vekjarann og vaknaði í morgun. Skrifaði sjö blaðsíður fyrir vinnuna, 2398 orð, og tel mig kominn á beinu brautina á ný. Ég hlakka til að vakna í fyrramálið og halda áfram. Þannig á það líka að vera.
Seinna í dag ætla ég hins vegar að hjálpa frænku konunnar minnar að flytja á milli húsa. Það verður gott og gaman. Í þessu mikla ræktarbanni þigg ég allt sem eykur hjartsláttinn, ekki síst allt sem snýst ekki um sama göngutúrinn í sama hverfinu og alltaf. Fer og tek vel á því fyrir frænku.
Þar til næst.