Kæri lesandi,

ég verð seint kallaður sérfræðingur í myndlist. Ég hef áhuga en hef kannski aldrei fundið réttu leiðina inn í fagið og fræðin, aðra en þá að taka stöku sinnum ástfóstri við tiltekin verk eða málara. Það gerðist enn á ný í gær, og nú langar mig að vita meira.

Ég veit ekkert hver Georgy Kurasov er/var, hef ekki haft fyrir að fletta honum upp nema til að gúgla málverkin hans. Í gær sá ég eitt af verkum hans á Instagram Story (já, í alvöru) og ég starði á það í nokkrar mínútur og reyndi að skilja hvernig það gat gengið svona ómögulega vel upp. Í gærkvöldi og aftur í dag gúglaði ég fleiri verk hans og starði á þau.

Kemur á daginn að mér finnst eitthvað sem er kallað kúbismi gríðarlega áhugaverð tegund myndlistar. Allavega ef eitthvað er að marka verk Kurasov, sem mér finnast endalaust áhugaverð. Til dæmis er verkið hér að ofan, titlað á ensku “The Rape of Europe”. Þetta verk kallast víst á við klassíkt verk, “The Rape of Europa” eftir ítalska listamanninn Titian sem var uppi á 16. öld. Það verk er frábært en þetta brýtur aðeins í mér heilann.

Ég er nokkuð viss um að allir með grunnþekkingu á myndlist sem lesa þetta ranghvolfa augum. Ég get ekki að því gert, ég kem ferskur að svona verki og það slær mig kaldan. Þetta er ógeðslega flott.

Annars átti ég rólegan dag í dag. Fullrólegan, en eiga laugardagar ekki að vera rólegir?

Þar til næst.