Kæri lesandi,

ég svaf vel í nótt en vaknaði við undarlegar draumfarir í morgun. Ég var hreinlega í uppnámi og þurfti að jafna mig eftir ömurlegan draum þar sem ég var sakaður um ýmislegt og að mér sótt úr öllum áttum. Þetta var mjög erfitt og ég var hugsi fram eftir morgni hvernig ímyndaður atburður gæti valdið mér slíku hugarangri, eða hvað undirmeðvitundin væri að reyna að segja mér með því að slengja þessu rugli í andlitið á mér á sunnudagsmorgni.

Ég jafnaði mig meðal annars með því að hlusta á 1Q84, frábæra bók Haruki Murakami. Ég hef aldrei lesið hann áður og ég er bara búinn með fjórðung eða svo af þessari löngu bók en ég er stórhrifinn. Í bókinni skrifar hann meðal annars þau fleygu orð að ef maður ofhugsi listasköpun sé það eins og að reyna að troða beinagrind inn í fiðrildi. Fleyg orð og sönn, og með þau í huga gæti ég þess að ofgreina ekki draumfarir mínar og settist þess í stað við skriftir. Áfram gakk!

Þar til næst.