Kæri lesandi,
nú geisar mikill vetur … annars staðar en á Íslandi. Texas-búar og flestir í mið-Bandaríkjunum eiga erfitt vegna snjókomu og kulda og Evrópa hefur ekki farið varhluta af vetrinum. Hér á suðvesturhorni Íslands höfum við kannski fengið þrisvar í vetur snjókomu að ráði og hún hefur bráðnað á degi tvö eða þrjú í öll skiptin.
Það er ekki hægt að segja annað en að veðrið spili með á tímum veirunnar. Enn mælist ekki nokkuð einasta smit í samfélaginu hér á landi og nú í dag kynnti ríkisstjórnin loksins aðgerðir til að loka enn frekar á að smitaðir einstaklingar komist til landsins. Frá og með næsta föstudegi verður fólk að vera skjalfest neikvætt áður en það kemur til landsins. Ekkert traust lengur, ekkert rugl. Við höfum verið með binary smit (núll til eitt) í nokkrar vikur núna og núll í heila viku en reglulega berast fréttir af erlendum ferðamönnum sem virða ekki sóttkví og stefna okkur öllum hinum þannig í óþolandi rúllettu. Í dag eru rúmlega sjö hundruð aðkomumenn á landinu í sóttkví og aðeins einn þeirra þarf að ákveða að skella sér á barinn með smit til að allt fari í veldisvöxt hér á ný. Nýju lokanirnar á landamærunum ættu að hjálpa okkur að núlla það út svo að við getum mögulega bara verið laus við veiruna hér næsta hálfa árið á meðan þjóðin er bólusett.
Og það í góðu veðri. Takk fyrir það, Ísland og veðurkerfin í kring. Ég elska ykkur öll. Sólin skín fyrir utan gluggann hjá mér og ég hlakka til að fara í góðan göngutúr síðdegis … úlpulaus, smithættulaus og í strigaskóm.
Þar til næst.
(myndin hér að ofan er tekin af Akrópolishæð í Aþenu, Grikklandi í dag, séð á Twitter)