Kæri lesandi,

þá er nýtt ár gengið í garð og það gamla fært til bókar. Ég kíkti á síðuna í þeim tilgangi að skoða hvað ég skrifaði á nýársdag fyrir ári, svona áður en ég gekk frá síðunni í marsbyrjun, en uppgötvaði mér til mæðu að ég skrifaði ekki eina færslu í janúar í fyrra. Sennilega hefur leiðinn verið orðinn það mikill á þeim tímapunkti, ég var alveg að gefast upp.

Skyndilega þótti mér þetta mjög leitt svo ég velti þessu aðeins fyrir mér í dag og ákvað að byrja aftur. Engin loforð, engar yfirlýsingar, engin áramótaheit. Er á meðan er.

Þetta ár hefst á svipuðum loforðum og flest þau fyrri. Minna af ýmsu, meira af ýmsu. Það markverðasta er kannski hugarfarið er snýr að því sem samfélag okkar hefur gengið í gegnum. Faraldurinn hefur núna geisað í 21 mánuð, Alpha varð að Delta sem er nú orðið að Omikron. Nýjasta afbrigði veirunnar er sagt talsvert vægara svo að maður þarf kannski ekki lengur að óttast hið versta ef maður fær veiruna, en nógu hratt smitar hún svo að við lifum enn við takmarkanir og andlitsgrímur. Ég er reyndar þríbólusettur eins og ansi margir aðrir (en ekki nógu margir, annars gætum við lifað í takmarkalausu samfélagi) en yngri dóttir mín bíður enn eftir fyrstu sprautu sem ætti að koma núna strax í janúar. Þannig að um áramótin lofaði ég mér að innleiða þá hugarfarsbreytingu að fara að segja aftur já við hlutum sem maður hefur sagt nei við síðustu 21 mánuðina. Það er kominn tími til að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi. Ef ég fæ veiruna verður að hafa það, þá treysti ég á sprauturnar þrjár og ef svo ólíklega vill til að það færi illa þá heiti ég að ganga aftur og herja á þríeykið að næturlagi.

Það er svo sem ágætt að segja skilið við 2021. Það var eins og flest ár mjög gott á köflum og mjög slæmt á köflum. Eldgosið í Fagradalsfjalli kom og fór án þess að ég bloggaði um það, sem og allir aðrir viðburðir síðustu tíu mánuðina. Ég bæti kannski úr því eftir því sem eitthvað markvert ber upp á á þessu ári, sjáum hvað ég endist.

Þetta hafa verið almennar og mjög klisjukenndar pælingar um áramótin. Eins og þú lest úr þessu niðurlagi mínu, lesandi glöggur, þá gríp ég enn hvert tækifæri til að efast um sjálfan mig og skrif mín. Það stendur þó til bóta. Ég hef lært ýmislegt í fjarverunni.

Nú er klukkustund eftir af nýársdegi og ég er að horfa á nýju uppáhalds sjónvarpsíþróttina mína, pílukast. Nánar tiltekið átta manna úrslit í HM í pílu, beint frá Lundúnum. Ég hefði eiginlega aldrei grunað það en þetta er ógeðslega gott sjónarpsefni og feykilega spennandi. Ég er að fara að fá mér píluspjald bráðum, það er á hreinu. Koma svo!

Þar til næst.