Kæri lesandi,

í kvöld sat ég og las þráð á Twitter sem var eins og falleg gjöf. Erlend blaðakona spurði þá út í tómið hvað það væri sem fólk saknaði helst úr fortíðinni áður en snjalltækin tóku yfir tilveru okkar. Svörin stóðu ekki á sér og þótt vissulega hafi gagnrýni á snjalltækin verið í fararbroddi þá voru mörg óvænt og íhugul svör sem vöktu upp hjá mér ýmsar kenndir.

Til dæmis sagði ein konan að hún saknaði þess að kynnast heilu fjölskyldunum við það eitt að hringja heim til vina sinna. Á síðustu öld var nefnilega bara í boði að hringja í heimasímann og þá gat hver sem er svarað, og þá var maður oft farinn að þekkja og spjalla svolítið við foreldra og systkini þeirra vina sem maður ætlaði upphaflega að tala við. Ef maður átti vin útí bæ þá komst maður ekkert hjá því að spjalla við fjölskyldu þeirra.

Annað gott svar kom frá manni sem sagði að hann saknaði þess að vita ekki hluti. Stundum datt honum í hug spurning en enginn nálægt honum vissi svarið, og þá var ekkert annað að gera en að bíða. En óvissan gat leitt til alls konar hugsanakeðja og ímyndunaraflið tók stundum völdin, þar til einn dag nokkrum vikum síðar að einhver mundi eftir að maður hafði spurt og sagðist hafa fundið svarið. Og þá var maður svo ánægður með að hafa fundið svarið. “Já, Van Damme er sem sagt frá Belgíu en ekki Frakklandi,” eins og það væri það mikilvægasta sem maður hafði heyrt. Að fletta þessu upp í símanum á núll-einni í dag er ekki næstum því jafn ánægjulegt, og skiljanlega metur maður vitneskjuna einskis í samanburði. Við búum yfir öllum heimsins upplýsingum en vitum minna en nokkru sinni fyrr.

Enn eitt frábæra svarið var á þá leið að maður þurfti stundum að taka sénsinn og fara bara út. Bara eitthvað. Ekkert skipulagt, bara hjóla um hverfið eða fara einn með bolta út á skólalóð og sjá hver birtist. Maður var því ekkert alltaf að leika við bestu vini sína heldur bara einhvern úr skólanum eða hverfinu. Það var frábær leið til að kynnast fólki. Og svo þegar ég varð eldri þá gerði maður það sama við vídjóleigur, æfingasvæðið hjá hverfisliðinu, bókasafnið eða verslunarmiðstöðina. Fór bara og hangsaði upp á von og óvon. Kannski hitti maður einhvern, en kannski ekki og þá var maður bara aleinn með sjálfum sér, sem var alls ekki síðra því maður var jú ekki með athyglissjúklinginn í vasanum sem aldrei gefur stundarfrið nútildags.

Það má kjarna þetta ágætlega í vísun sem kom frá einum tilsvarenda. Sá sagðist hafa verið að horfa á Seinfeld á Netflix, en þættirnir komu nýlega þar inn, og hafa brugðið við að sjá hversu mörg atriði byrjuðu á því að eitt þeirra sat í bás á kaffihúsinu og var bara að stara á kaffibollann sinn, eitt með hugsunum sínum, þegar annað af þeim fjórum fræknu gekk inn og þau hófu samtal. Kannski sat George Costanza niðurlútur í bás þegar Kramer kom kátur og svífandi inn, eða öfugt. En undirliggjandi var sú staðreynd að eitt þeirra hafði bara álpast inn á kaffihúsið og beðið eftir einhverjum öðrum. Bara eitthvað út í loftið, oftast. Ekkert ákveðið. Þau gátu alveg beðið og séð til.

Þessi hegðun er að mestu leyti horfin á meðal ungs fólks í dag, og ég velti fyrir mér hvort það hafi ekki eitthvað glatast í leiðinni.

Eða eins og kanadíska hljómsveitin Arcade Fire lýsti þessu í frábæru lagi sínu, “We Used To Wait”:

Now it seems strange,
how we used to wait for letters to arrive.
But what’s stranger still
is how something so small can keep you alive.
We used to waste hours just walking around,
all those wasted lives in the wilderness downtown.
We used to wait.

Þar til næst.