Kæri lesandi,

í fyrramálið lýkur jólafríi dætra minna, en þær eru báðar á grunnskólaaldri. Sú eldri er bólusett og fær væntanlega örvunarskammt á næstu vikum en sú yngri er í þeim aldursflokki sem enn bíður bólusetningar, og þökk sé Omicron-afbrigðinu hefur Covid-19 verið að smitast í áður ómældum tölum síðustu vikur hér heima. Þetta hefur ekki gert foreldrum auðvelt fyrir að ákveða hvað gera skuli við yfirvofandi skólahald.

Þórólfur sóttvarnarlæknir og Víðir lögga mældust til þess að skólahaldi yrði frestað en nýslegnir ráðherrar, Willum í heilbrigðis og Ásmundur barna- og skólamála eða hvað það ráðuneyti heitir, þeir vildu ekki fresta (hjól atvinnulífsins sennilega vegið þungt í þeirri ákvörðun). Þannig að skólahald hefst í fyrramálið.

Við höfum eftir miklar umræður ákveðið að halda þeirri yngri heima á morgun hið minnsta og sjá til. Meta stöðuna aftur annað kvöld. Við erum í stöðu til að halda henni heima, getum bæði unnið að heiman á meðan hún er hjá okkur yfir daginn, en á sama tíma þykir mér óþægilegt að vera að reyna að rýna í tölfræði og taka ákvarðanir um eitthvað sem mér finnst að fagfólk ætti að ákveða fyrir mig. Ég hef verið meira en sáttur við að hlýða fagfólkinu í þessum faraldri og hefur fundist það ganga vel á Íslandi, líka þegar mistök hafa verið gerð og svo leiðrétt jafnóðum. Því efast ég um þessar pælingar allar, spyr mig hvort það sé megalómanía af okkar hálfu að vera að efast um ákvörðun stjórnvalda að fresta ekki skólanum. Ég viðurkenni samt á móti að það vegur þungt að fagfólkið í þessu máli, Þórólfur og læknar og kennarar, hafa flest mælst til að skólahaldi verði frestað.

Þannig að við ætlum að bíða og sjá til. Hún er viðkvæm og ég er ekki til í að kasta teningunum með heilsu dóttur minnar akkúrat núna. Kaupum okkur smá tíma, höldum henni heima í 1-2 daga og sjáum hvað er að frétta. En þetta er ekki auðveld ákvörðun og það verður seint sagt að hún sé tekin af einhverri sterkri sannfæringu, annarri en þörfinni á að vera frekar safe en sorrý hvað heilsu dóttur okkar varðar.

Og þannig hafa síðustu 21 mánuður verið. Fólk eins og við sem veit ekkert um veirusýkingar og farsóttir hefur allt of oft neyðst til að taka stórar ákvarðanir um þessi mál. Það tekur á að vera með lífið í lúkunum á nokkurra vikna fresti. Þessum faraldri má alveg fara að ljúka, þótt lítið útlit sé fyrir slíkt á næstunni.

Hvað um það. Heimadagur með þeirri yngri á morgun. Ég hlakka til að tapa fyrir henni í tengingaspili og eflaust apa- og drottningaspilunum líka.

Þar til næst.