Kæri lesandi,

mér finnst ég rekast oftar á það að eitthvað er rifið úr samhengi og kastað fyrir úlfana á samfélagsmiðlum. Og svo grennslast maður frekar fyrir og les jafnvel allt viðtalið þaðan sem umdeildu ummælin spruttu, eða horfir á allan myndbútinn, eða les bókina sjálfur, og kemst að því að þetta var ekkert svo forkastanlegt eftir allt saman. Hristir svo hausinn yfir Látrabjarginu á netinu, þar sem takmarkið virðist vera að hafa sem hæst.

Ekkert af þessu skilar góðri eða vandaðri umræðu. Samfélagsmiðlar hafa brotið á bak aftur þögnina um mörg mál sem höfðu þrifist í skuggunum allt of lengi, og það er vel. En það er langt því frá að kerfið sé þar með gallalaust. Sjálfur ákvað ég um mitt síðasta ár að fjarlægja mig frá þessum miðlum, eyða öllu sem ég hafði sett þar inn og setja tímann meira í raunheima og fólkið sem skiptir mig máli. Það reyndist hollasta ákvörðun sem ég hef tekið lengi.

Allavega. Þetta var bara stutt pæling. Það ætti að vera mottó hjá okkur að slaufa engum nema við ítrustu aðstæður, og það er munur á hvort einhver reynist vera raðnauðgari eða hvort einhver sagði mögulega einhvern tímann á yngri árum brandara sem gerði grín að minnihlutum. Það er munur þarna á. Við þurfum að læra upp á nýtt hvernig á að vera ósammála fólki (aftur, ég er ekki að tala um kynferðisglæpamenn) án þess að byrja að hrópa að því og gera aðsúg. Sem er einmitt það sem samfélagsmiðlar eru hannaðir fyrir, því miður.

Þar til næst.