Kæri lesandi,
ég fór í bústað með vini mínum í byrjun nóvember. Sá er mikill Queen-aðdáandi og við ræddum þá hljómsveit nokkuð í pottinum og víðar. Í kjölfarið ákvað ég að ráðast í hlustun á öllum hljómplötum sveitarinnar, vini mínum til mikillar kátínu. Ég hlustaði á þær í tímaröð, elsta fyrst, en þetta eru alls 15 breiðskífur og ég setti mér þá reglu að hlusta á hverja þeirra tvisvar. Þannig að ég hlustaði talsvert á hljómsveitina Queen í nóvember.
Niðurstaðan var kannski sú sem mig grunaði. Queen var feykigóð rokkhljómsveit sem gat dælt út hverjum slagaranum á fætur öðrum svo að Greatest Hits-lagalistinn þeirra stenst í raun samanburð við hvaða hljómsveit sem er. En þeir áttu aldrei þessa einu stórkostlegu plötu, fimm stjörnu listaverk sem stenst tímans tönn. Að mínu mati voru þeir eiginlega aldrei nálægt því, ég gaf þeim best 3,5 af 5 í einkunn fyrir plötuna The Works frá árinu 1984 en það er hreinlega ekki nógu gott fyrir sveit sem telst jafngóð og Queen og fór fjórtán sinnum í hljóðver til að taka upp breiðskífu (sú fimmtánda var Flash-sándtrakkið sem fylgdi myndinni – það eldist skelfilega).
Í kjölfarið réðumst við vinur minn í hlustun á plötur írsku sveitarinnar U2. Þá sveit þekki ég talsvert betur en hann, ólst upp við að hlusta á U2 sem voru svona fyrstu rokkstjörnurnar uppá vegg hjá mér upp úr tíu ára aldri. Við erum búnir með 10 af 14 breiðskífum sveitarinnar, höfum tekið okkur allan desember og það sem af er janúar í þetta. Hlustuðum á All That You Can’t Leave Behind frá árinu 2000 í morgun og spjölluðum saman yfir spilun hennar. U2 er sveit sem á sambærilega frábæran Greatest Hits-lagalista og Queen en voru á sínum tíma einfaldlega miklu betra breiðskífuband. Í raun má segja að frá 1983 (War, þriðja plata sveitar) og til 1993 (Zooropa, sjöunda plata sveitar) stígi þeir vart feilspor og plöturnar fá allar á bilinu 4-5 af 5 mögulegum í einkunn hjá okkur vinunum. The Joshua Tree frá 1987 og Achtung Baby frá 1991 eru reglulega taldar með bestu plötum allra tíma í sögu rokksins en hinar þrjár á þessu tímabili eru ekkert mikið síðri. U2 eru hins vegar hljómsveit sem byrjar skelfilega, en fyrstu tvær plötur sveitarinnar eldast skelfilega illa, og hafa svo aldeilis misst móðinn en eftir að dýrasta og stærsta plata þeirra, Pop, fór flatt og fékk á baukinn hjá gagnrýnendum og aðdáendum árið 1997 var allur vindur úr sveitinni og þeir hafa varla gert nokkuð af viti nema algjöra froðu sem á best heima á Bylgjunni síðan þá. En þegar þeir voru frábærir voru þeir sko frábærir.
Við eigum enn eftir síðustu fjórar plötur U2 sem ég veit að eru ekkert spes, en svo höfum við ákveðið að fara næst yfir feril bandarísku hip-hop sveitarinnar The Roots. Ég hlakka mikið til.
Annars gerði ég lítið af einhverjum árslistum þessi áramótin. 2021 var rokkár í mínum eyrum, stórar sveitir eins og Gojira og Mastodon gáfu út frábærar breiðskífur og svo heillaðist ég mikið af Dream Weapon, plötu Genghis Tron sem gáfu út í fyrsta sinn í áratug. Hún var sennilega plata ársins hjá mér enda hef ég notið hennar í tæpt ár núna, en þó skal því haldið til haga að tvöföld breiðskífa Mastodon, Hushed and Grim, sem kom út í nóvember, er nær örugglega besta plata ársins hjá mér enda magnað stórvirki.
Ég reyndi að muna hvaða frábæru kvikmyndir ég sá í fyrra en átti erfitt með að nurla saman í lista, sem segir kannski mikið. Besta sjónvarpið var sennilega enduráhorf á Sons of Anarchy síðasta sumar, Squid Game sem tröllreið öllu í haust og belgísku þættirnir The Twelve sem eru á Netflix og allir unnendur sakamálaþátta ættu að sjá. Svo var Succession mikið sjónarspil að venju.
Hér eru svo að lokum bestu bækur sem ég las í fyrra, í réttri röð. Ég lofaði sjálfum mér í upphafi árs í fyrra að lesa minna, reyna að helminga ofsalesturinn sem var farinn að hrjá mér, og það tókst. Ég las um fimmtíu bækur í fyrra og þetta eru þær bestu:
- Grænmetisætan e. Han Kang
- 1Q84 e. Haruki Murakami
- Empire of Pain e. Patrick Radden Keefe
- When We Cease to Understand the World e. Benjamin Labatut
- Seveneves e. Neal Stephenson
- Hail Mary e. Andy Weir
Þetta eru allt stórvirki í bókmenntum, þessar fimm efstu. Það er kannski eins gott að ég var ekki að blogga þegar ég las Empire of Pain í fyrravor, þá hefði ég sennilega skrifað um hana á hverjum degi í nokkrar vikur, svo mjög heltók hún mig enda langt síðan ég hef lesið um aðra eins illsku og þá sem skóp ópíóðafaraldurinn vestan hafs.
Ég sagði fimm en laumaði Hail Mary með af því að hún var svo skemmtileg. Skemmtilegasti lestur ársins. Ég elskaði The Martian eftir Weir, fyrstu bók hans sem sló rækilega í gegn og var kvikmynduð með Matt Damon og hvaðeina, en mér fannst önnur bókin hans Artemis mjög slöpp. Það var því virkilega óvænt og mikil ánægja að sjá hversu frábær þriðja bók hans reyndist. Ég get ekki beðið eftir að sjá kvikmyndina fyrir þetta geimævintýri, og ég hugsa að ég muni lesa þessa bók aftur á næstu árum.
Lesandi glöggur, þú tekur eflaust eftir því að það er engin íslensk bók þarna á lista. Það á sér þá einföldu skýringu að eftir að ég lauk þriggja ára störfum í dómnefnd Blóðdropans fyrir páska í fyrra þá tók ég mér langt frí frá íslenskum bókalestri. Ég kom aftur kortér í jól og las 2-3 íslenskar skáldsögur, og á meira til heima hjá mér, en ég er enn að melta þær og reyni því ekki að setja þær á lista að svo stöddu. Bækur þurfa tíma.
Þar til næst.