Kæri lesandi,
í árslistaupptalningunni í gær ljáðist mér að nefna þáttaröðina sem var sannarlega það besta sem ég sá á árinu 2021. Midnight Mass eftir meistara Mike Flanagan á Netflix. Serían fjallar um ungan mann sem snýr til baka á litlu krummaskuðseyjuna þar sem foreldrar hans búa eftir að hann losnar úr fangelsi. Hann hefur misst trúna (á Guð og sjálfan sig) en þegar hann endurnýjar kynnin við æskuástina sína kviknar í gömlum glæðum.
Hljómar gríðarlega klisjukennt, ekki satt? Nema hvað, þegar ungur prestur mætir á eyjuna til að stýra söfnuðinum í stað gamla prestsins sem liggur veikur á meginlandinu fara undarlegir atburðir að gerast á eynni.
Það er ekki of djúpt í árinni tekið þegar ég segi að ég hef ekki átt áhorfsupplifun af þessu tagi í mörg, mörg ár. Lengi vel vissi ég ekkert hvað var að gerast en þetta var svo vel skrifað, leikið, leikstýrt og svo framvegis að ég var sem límdur við þetta. Þegar mér varð svo ljóst hvað var á seyði á eyjunni var það svo óvænt fokking ánægja að ég réði mér vart. Næstsíðasti þátturinn í þessari seríu, sjálf miðnæturmessan (no spoilers), er svo með bestu sjónvarpsþáttum sem ég hef séð um ævina. Fokk hvað þetta var fullkomið sjónvarpsefni og ég bíð spenntur eftir að sjá hvað meistari Mike Flanagan (hann heitir það núna) gerir næst.
Í öðrum algjörlega óskyldum fréttum byrjaði ég að lesa vampírusögu í dag. Empire of the Vampire, bók sem kom út í fyrra og er sú fyrsta í lofaðri ritröð, hefur fengið frábæra dóma og slegið í gegn, ekki síst fyrir að gera stóra og flókna vampírusögu fyrir fullorðna (hér glitrar enginn). Ég hef ekki lesið vampírusögu í mörg, mörg ár svo að ég freistaðist og hef lesið rúmlega hundrað blaðsíður í dag (af 700). Þetta er stórgott hingað til og hressandi tilbreyting frá öllum glæpunum og ævisöguefninu sem ég hef lesið undanfarið.
Þar til næst.