Kæri lesandi,

í dag er föstudagur. Vinnuvikan er á enda, dæturnar báðar farnar í gistingu á sitt hvorum staðnum yfir helgina og dagskráin er tóm. Hvað gera fertug hjón þá, með heiminn að fótum sér? Sennilega það sama og alltaf. Pöntum tælenskan mat, af því að við getum aldrei borðað hann með stelpunum sem hata tælenskan, sitjum í þögn um stund, eigum innihaldsrík samtöl þar sem við náum að klára setningar án þess að einhver kalli eða trufli, og horfum svo eflaust á sjónvarp án þess að þurfa að setja hvern þátt tíu sinnum á pásu.

Villt líferni.

Ég var aldrei mjög villtur, svosum. Tvítugur ég, fyrir hálfri ævinni síðan, kaus miklu frekar að fara snemma úr partýinu og rúnta smá eða henda mér í bíó, frekar en að stíga yfir línuna og verða stjórnlaus í einhverri ölvun eða gleði. Ég veit ekki af hverju, maður er bara eins og maður er. En öllu má nú ofgera, og við hjónin erum sennilega orðin svo mosavaxin hér heima hjá okkur að sumum þætti eflaust nóg um.

Við kvörtum ekki. Það verður dásamlegt að fá tælenskan í kvöld og slaka aðeins á án barna. Mikill lúxus. Algjört normcore. Þetta er lífið.

Þar til næst.