Kæri lesandi,
í dag kynntu sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra óbreyttar takmarkanir næstu þrjár vikurnar, eins og verið hefur frá því fyrir jól. En svo steig lögreglustjórinn í pontu og hvatti fólk til að haga sér eins og allt væri harðlæst, sem er ekki raunin. Og eftir sitjum við útí bæ, almenningur, og spyrjum okkur á hverja skal hlusta. Hvað gerum við þegar sérfræðingarnir segja eitt og stjórnmálafólkið segir annað? Á hverja skal hlusta, þá sem eiga að vita best eða þá sem setja reglurnar? Þetta er alltaf jafn óþolandi, nú á 22. mánuði faraldursins, að lenda reglulega í því að þurfa að velja á milli. Mín skoðun hefur einmitt verið sú að vera ekki að ofhugsa þetta sjálfur heldur treysta fagfólkinu, en þá geri ég líka þá lágmarkskröfu að fagfólkið sé sameinað um hvað skuli gera.
Hvað um það. Síðustu dagar hafa einkennst af skimutökunum hér og þar. Konan mín var neikvæð á laugardag, mamma mín var neikvæð í gær og eldri dóttir mín var neikvæð í dag. Yngri dóttir mín fer í sína fyrri sprautu á morgun, loksins. Ég þekki lækna sem ætla að mæta fyrstir í röðina með sín börn, slíkt er öryggið með bóluefnin. Ég efast ekki í sekúndu um að þetta verði allt í lagi, treysti öllu ferlinu frá þróun á rannsóknarstofu til framleiðslu og því sem allir sérfræðingar á sviðinu segja, miklu betur en því sem Joe Rogan segir í einhverju hlaðvarpi frá Texas. Litla ruglið að horfa upp á fólk ákveða að það viti betur en sérfræðingarnir. Ég reyni eftir fremsta megni að dæma annað fólk ekki of hart, en þegar ég les sum rökin frá fólki sem vill frekar drekka eigið hland eða innbyrða ormahreinsunarlyf fyrir búfénað en að treysta bóluefnum, þá dettur mér alltaf í hug sama setningin úr ranni Georgs Bjarnfreðarsonar í Vakta-þáttunum forðum daga. “Meðalgreinda þjóð.”
Annars eru janúarlægðirnar mættar, hver á fætur annarri. Það er lítið um snjó í þessum hamagangi en nóg af roki og rigningu. Maður kvartar svo sem ekki á meðan snjóleysið varir, en fyrst maður á að láta eins og allt sé harðlæst í samfélaginu væri allt í lagi að komast í göngutúr. Ég bið ekki um mikið.
Þar til næst.