Kæri lesandi,

upp er runninn síðasti dagur nóvembermánaðar á því herrans ári tvö þúsund tuttugu og tvö. Nú teljum við niður til jóla, erum á beinu brautinni, aðventukertin komin í krans og skrautið í hillur. Jólaljósin lýsa upp hverfi íbúanna í mesta skammdeginu og mandarínurnar árstíðabundnu eru mættar í verslanir.

Ég sný líka aftur, eins og hinir höfundarnir, nema að á meðan þeir lauma nýjustu innbundnu orðunum sínum í búðir vek ég Aukalífið af vænum dvala og rifja upp fingrasetninguna á lyklaborðinu. Það er kominn tími til. Ég hef ekkert sérstakt að segja en það sem máli skiptir er að segja eitthvað, rúlla boltanum af stað niður hlíðina og sjá hverju hann þyrlar upp á leiðinni. Orðin koma og innihaldið líka, en fingurnir eru allavega á lyklaborðinu. Við getum kallað það ágætis byrjun.

Ég fór og hjálpaði vini mínum að flytja búslóð í gærkvöldi. Það var hressandi, ekki síst þar sem ég hef stundað mjög takmarkað af líkamlegri áreynslu síðustu þrjá mánuðina af heilsufarsástæðum. Ég segi kannski frá því seinna hér, ef ég ákveð að þora því, en í stuttu máli sagt þá hætti hjartað á mér að slá í tuttugu sekúndur um verslunarmannahelgina og þær tuttugu sekúndur kostuðu þriggja mánaða ferli þar sem allar mögulegar rannsóknir voru framkvæmdar áður en ég fékk hreinan skjöld og útskrift. Það er ekkert að mér, en ég varð samt að fara varlega. Nú er hins vegar komið að því að endurheimta það sem hefur tapast, og það var ágætis stöðutékk að bera þunga kassa niður af annarri hæð og upp á þriðju hæð í gærkvöldi. Niðurstaðan er sú að þetta virkar allt saman ennþá en er talsvert aumara og þreyttara en gott getur talist. Ég hugsa að ég sleppi súkkulaðidagatalinu þennan desembermánuð og gefi sjálfum mér tuttugu og fjórar æfingastundir í staðinn. Svo ætla ég að valhoppa upp allar landsins tröppur á jóladag eins og ég hafi aldrei gert annað.

Huh. Ég sagði frá því núna eftir allt saman. Þetta var ekki flókið. Ég byrjaði að vélrita og orðin komu bara. Þannig er nú það.

Þar til næst.