Kæri lesandi,

í dag er fyrsti desember, og nú í morgun hefði ég átt að vera að stíga úr flugi frá New York til Íslands. Svo fór þó ekki. Í maílok bókaði ég vikuferð til BNA með góðvini mínum. Við ætluðum að fljúga til og frá NY, taka tengiflug áfram þaðan til Nashville og svo heim frá Indianapolis viku seinna. Í millitíðinni ætluðum við að eyða nokkrum dögum í Nashville, keyra svo til Indianapolis og vera þar í tvo daga áður en við færum heim. Við ætluðum að heimsækja kántrísafnið í Nashville, skála fyrir aldarafmæli Kurt Vonnegut í Indianapolis og sjá leiki í amerísku ruðningsdeildinni NFL á báðum stöðum.

Við ákváðum að slá ferðina af fyrir mánuði síðan vegna ýmissa ástæðna. Það var einfaldlega ekki hentugt eftir allt að fara út núna, hvorugur okkar hafði tíma fyrir þetta og við hugsuðum með okkur að við hefðum keypt ferðatryggingar á allt saman svo að það yrði auðvelt að fá útlagt fé endurgreitt og gera þetta bara næsta haust í staðinn.

Hótelin endurgreiddu samdægurs. Icelandair þurftu veikindavottorð sem við framreiddum báðir (af góðum ástæðum, ég gat nú bara spurt hjartalækninn sem var skotheld afsökun) og þá fengum við þau flug til baka, og við höfðum ekki enn borgað fyrir bílinn þannig að því var sjálfhætt. Miðana seldi ég svo í gegnum Ticketmaster í síðustu viku, fékk ekki fullt verð til baka en var feginn að ná að selja á 80-85% af upphaflegu verði. Allt er betra en ekkert. Reyndar var vesen að þurfa að vera með bankareikning í BNA til að fá borgun fyrir miðana en við græjuðum það með velviljuðum millilið.

Innanlandsflugin voru annar kafli. Ég bókaði þau fyrir okkur í vor og keypti fulla ferðatryggingu en þegar kom að því að fá endurgreitt var mér bara vísað á tryggingafyrirtæki vestan hafs sem sendi mér einhver fáránlegustu eyðublöð sem ég hef séð. Það þurfti að fá afrit af ýmsu, auk læknisvottorðs á ensku og stimpil frá sýslumanni og ég veit ekki hvað. Og þá sá ég hvað fólk vestan hafs þarf að berjast við. Þessi tryggingafyrirtæki eru ekkert grín, þau eru viljandi að gera fólki eins erfitt fyrir og hægt er að leita réttar síns. Maður hefur séð þetta í kvikmyndum og sjónvarpsefni og ég verð að viðurkenna að ég ber margfalt meiri virðingu fyrir Erin Brockovich og öðrum slíkum eftir að hafa lent í þessu. Frekar einfalt dæmi sem var leyst á mannúðlegan hátt af Icelandair varð algjör martröð hjá tveimur flugfélögum vestra. Svo fór að ég fékk annað flugið endurgreitt en hitt er bara tapað fé. Lengi lifir, lengi lærir. Við fljúgum ekkert innanlands næst, keyrum bara.

Svo í gær þegar við lokuðum þessum kafla vinirnir og ákváðum að ræða þetta aftur næsta vor þegar leikjadagskrá tímabilsins 2023 liggur fyrir og hægt er að plana næstu ferð, þá sótti skyndilega að mér einhver grunur um að við myndum kannski aldrei láta verða af þessu, að þetta hafi verið tækifærið eina og góða og maður eigi ekki að slá hlutum endalaust á frest fyrir morgundaginn. Ég hristi þessa tilfinningu af mér á endanum, en það er ansi stutt í hana þessi misserin, á tímum faraldurs og heilsubrests. Einhvern tímann þarf morgundagurinn að vera í dag.

Þar til næst.