Kæri lesandi,

ég virðist vera lentur á svarta listanum. Eldri dóttir mín vill fara til Hveragerðis í dag með vinum sínum að hitta fleiri vini. Gott og blessað, þau ætluðu að taka strætó úr Hafnarfirði núna eftir hádegið sem ég er ekkert yfir mig hrifinn af en allt í lagi, en svo kom beiðnin um að ég myndi sækja hana í Hveragerði í kvöld. Ég hugsaði mig aðeins um og sagði svo nei, af því að ég hreinlega nennti ekki að eyða tímanum milli tíu og miðnættis í kvöld í að berjast við myrkrið og regnið og rokið til að skjótast yfir fjallið. Ég er bara breyskur maður á miðjum aldri sem vill fá að slaka á í sófanum heima hjá sér og horfa á Tulsa King, og sofna svo yfir góðri bók.

Þá vildi dóttir mín, sem er fjórtán ára gömul, fá leyfi til að fara aftur í bæinn með strætó laust undir miðnætti í kvöld. Ég neitaði því, sagði það ekki koma til greina, hún væri allt of ung, og þá gæti ég alveg eins sótt hana því ég væri ekkert rólegur vitandi af henni í strætó á milli landshluta, hún yrði bara að þola að vera heima hjá sér í þetta skiptið. Hún var ósátt við það, heillin, og nú er ég á svarta listanum og þarf eflaust að byrja á að leita sátta við frumburðinn og fyrrverandi einkabarnið þegar ég kem heim af skrifstofunni síðdegis.

Það getur verið flókið að vera foreldri. Maður þarf reglulega að minna sig á að það skiptir máli að vera vinur barnanna sinna en það skiptir meira máli að taka réttar ákvarðanir fyrir þau. Vinsældirnar mega ekki þvælast fyrir skynseminni. Ég skil hana samt vel að vera ósátt við mig, þótt hún neiti að skilja mig.


Ég fór einmitt með téða dóttur í Nexus í gær. Hún þurfti að kaupa plaköt á veggina inni í herberginu sínu. Ég notaði tækifærið og skoðaði bókahluta verslunarinnar og fann þar bókina Children of Memory eftir Adrian Tchaikovsky. Það var sannkallaður happafengur. Þetta er þriðja bók í seríu á eftir hinni margverðlaunuðu Children of Time (sem ég las í Liverpool stuttu eftir útgáfu) og svo framhaldsbókina Children of Ruin (sem ég las á Ítalíu sumarið 2019). Nú, þremur árum síðar, er ég loksins kominn með þriðju bókina í hendurnar. Ég ætlaði að glugga aðeins í henni í gærkvöldi en endaði á að lesa næstum 100 blaðsíður, sofnaði reyndar fyrir rest með hana í fanginu og rankaði við mér eftir miðnætti. Þannig að bókin byrjar frábærlega en hafði af mér almennilegan nætursvefn.

Ég var að fá símtal frá dótturinni. Hún ætlar að gista hjá vinkonu sinni í Hveragerði og þá samþykkti ég að sækja hana í hádeginu á morgun, sem er skömminni skárra en kvöldaksturinn. Hún var hæstánægð með mig. Svona er þetta fljótt að breytast.

Þar til næst.